Bæjarstjórnarbekkurinn

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins vinnur að því að auka sjálfsstjórn og lýðræði í evrópskum sveitarfélögum.  Það stendur árlega fyrir átaki sem felst í því að hvetja sveitarfélög til að skipuleggja sérstakar aðgerðir í eina viku í október til að vekja athygli á lýðræðislegu hlutverki sveitarfélaga og mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku íbúa. Að þessu sinni verður lýðræðisvikan dagana 12.-18. október en tímasetningin í október var valin vegna þess að 15. október 1985 var Evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga opnaður til undirritunar. Ísland hefur fullgilt þennan sáttmála sem er mikilvægur hornsteinn fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga og er vísað til hans í nýju sveitarstjórnarlögunum. Nánar á vefsíðu sambandsins.
Nokkur íslensk sveitarfélög hafa sýnt áhuga á að taka þátt í lýðræðisvikunni. Fljótsdalshérað mun m.a.  setja upp bæjarstjórnarbekk á fjölförnum stað í sveitarfélaginu þar sem íbúum gefst tækifæri til að ræða milliliðalaust við bæjarfulltrúa og koma sínum erindum og skoðun á framfæri við þá. Einnig hefur komið fram sú hugmynd að fara með hefðbundinn bæjarstjórnarfund út í dreifbýlið og efla þannig tengslin við íbúana í dreifbýli Fljótsdalshéraðs.