Ábendingar til sveitarfélaga um fasteignaskatt o.fl. á mannvirki tengd ferðaþjónustu


Uppsveifla í ferðaþjónustu undanfarin misseri felur í sér nýjar áskoranir fyrir sveitarfélögin, m.a. vegna breyttrar nýtingar á fasteignum. Þannig hefur framboð á heimagistingu aukist mikið, auk þess sem algengt er að íbúðarhúsnæði sé leigt út á bókunarvefjum. Töluverður misbrestur hefur verið á því að aflað sé tilskilinna leyfa til slíks rekstrar og hluti þessara auknu umsvifa tengjast svonefndri svartri atvinnustarfsemi. Töluverðir hagsmunir felast í því að sveitarfélög lagi stjórnsýslu sína að þessum breytingum og þau gæti þess m.a. að álagning fasteignaskatts taki mið af nýtingu húsnæðis.
Í leiðbeiningum sem sambandið hefur birt á heimasíðu sinni er að finna ábendingar um ýmis álitaefni sem nýst geta sveitarfélögum við ákvörðun um álagningu fasteignaskatts á mannvirki sem tengjast ferðaþjónustu. Um er að ræða lítillega uppfærða útgáfu af leiðbeiningum sem sendar voru til allra sveitarfélaga í lok apríl 2015. Lögfræðingar sambandsins eru jafnframt til frekari ráðgjafar um málið ef þörf er á.
Leiðbeiningarnar hafa vakið töluverð viðbrögð og er ljóst að víða er áhugi á því að vanda betur til verka við álagningu fasteignaskatts á þessar fasteignir.