Lestur ársreikninga

Fjármál sveitarfélaga, 6. hluti


Starfsemi sveitarfélags samanstendur af tveimur meginhlutum, A-hluta og B-hluta. A-hlutinn er sá hluti af starfsemi sveitarfélags sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Skatttekjur eru útsvar, fasteignaskattur og greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Undir A-hlutann fellur starfsemi eins og fræðslustarfsemi (grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli), félagsþjónusta sveitarfélaga, æskulýðs- og íþróttamál, umhverfismál, skipulagsmál og hreinlætismál. Undir B-hlutann fellur sá hluti af starfsemi sveitarfélags sem er að mestu eða öllu leyti fjármagnaður með þjónustutekjum. Það eru fyrirtæki sveitarfélaganna. Sem dæmi um fyrirtæki í B-hluta má nefna hafnarsjóð, vatnsveitur og hitaveitur og félagslegt húsnæði.

A-hlutinn, sem fjármagnaður er að mestu leyti með skatttekjum,  er kjölfestan í rekstri sveitarfélaga. Ef rekstur B-hluta fyrirtækja gengur illa þá hleypur A-hlutinn gjarna undir bagga. Á hinn bóginn er miklum takmörkunum háð að flytja fjármagn úr B-hluta fyrirtæki sem gengur vel yfir í A-hlutann enda þótt rekstur hans sé erfiður. Einnig er ekki heimilt að flytja fjármagn úr einu B-hluta fyrirtæki yfir í annað.

Uppsetning ársreikninga fyrir sveitarfélögin tekur mið af þessum forsendum. Sérstakur ársreikningur er settur upp fyrir A-hlutann. Sérstakur ársreikningur er síðan settur upp fyrir hvert fyrirtæki í B-hluta og að lokum er settur upp einn samstæðureikningur fyrir samanlagðan A-hluta og B-hluta. Niðurstaða samstæðureiknings leiðir í ljós heildarveltu sveitarfélagsins, heildareignir þess og heildarskuldir. Ársreikningar fyrir bæði A-hluta og B-hluta fyrirtæki skulu settir upp á sama hátt þannig að þeir séu eins sambærilegir og fært er.

Með hliðsjón af fyrrgreindum takmörkunum um flutning fjármagns frá B-hluta fyrirtækjum til A-hlutans og eins þeim takmörkunum sem eru á því að flytja fjármagn milli einstakra B-hluta fyrirtækja þá ber að varast að líta á niðurstöður ársreiknings fyrir A+B hluta sem rekstur eins fyrirtækis eða stofnunar. Þar er fyrst og fremst um að ræða samantekt á heildarumsvifum, eignum og skuldbindingum sem fara fram á vegum sveitarfélagsins og sveitarstjórnin ber endanlega ábyrgð á. Heildarumsvifin deilast síðan niður á nokkrar tiltölulega sjálfstæðar rekstrareiningar.

Þegar ársreikningar sveitarfélags eru skoðaðir og niðurstaða þeirra greind, þá er mest lagt upp úr því að fara yfir stöðu A-hlutans eða sveitarsjóðs eins og hann er einnig nefndur. Hann er kjölfestan í rekstri sveitarfélagsins. Undir hann falla flest þau lögbundnu verkefni sem tengjast þjónustu við íbúa í sveitarfélaginu. Í A-hlutanum er skattfé íbúanna ráðstafað. Ef A-hlutinn stendur illa fjárhagslega þá líður ekki á löngu þar til áhrif þess fara að birtast íbúunum á einn eða annan hátt s.s. í skertri þjónustu eða hækkun skatta og gjaldskráa eftir því sem fært er. Því er eðlilegt að athyglin beinist fyrst og fremst að honum.