Leikskóli að loknu fæðingarorlofi

Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 5/143, dagsett 19. desember 2013, sem fól mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Starfshópurinn hefur nú lokið störfum en honum var ætlað að greina faglegar kröfur og fjárhagsleg sjónarmið sem taka þurfi tillit til, þar á meðal varðandi mannafla og húsnæðisþörf leikskóla miðað við áætlaða fjölgun leikskólabarna á aldrinum eins til tveggja ára, ásamt leiðum til fjármögnunar.
Helstu niðurstöður hópsins snúa m.a. að því að þróun í dagvistunarmálum barna á síðustu tveimur áratugum er í þá átt að gæsla, umönnun og nám barna utan heimilis, frá lokum fæðingarorlofs til upphafs skyldunáms í grunnskóla, hefur færst í æ ríkari mæli inn í leikskóla. Tölur sýna einnig að hlutfall barna á öðru aldursári sem sækja leikskóla hefur haldist nokkurn veginn það sama undanfarin ár. Ef tillaga um leikskóla að loknu fæðingarorlofi á að ná fram að ganga er ekki hægt að reiða sig á að þróun undanfarinna áratuga muni sjálfkrafa leiða í þá átt. Yfirstíga þarf ákveðnar hindranir varðandi húsnæði, starfsfólk og fjármagn.
Starfshópurinn telur að stefna ætti að því að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla frá 12 mánaða aldri. Þróunin undanfarin 20 ár sýnir glögglega mikla þörf fyrir leikskóla strax að fæðingarorlofi loknu með kröfum bæði frá foreldrum og atvinnulífi. Fagleg rök eru einnig fyrir því að bjóða frekar leikskóla en daggæslu í heimahúsum. Ljóst er að þetta er kostnaðarsamt og að möguleikar sveitarfélaga til að standa undir slíkri uppbyggingu á næstu árum eru mjög misjafnir. Benda má á að á vegum Reykjavíkurborgar er starfshópur að skoða möguleika á að bjóða leikskóla frá 12 mánaða aldri.