Þjóðarsáttmáli um læsi

Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðherra, Kennarasamband Íslands og Heimili og skóli, landssamtök foreldra hafa undirritað Þjóðarsáttmála um læsi.  Með sáttmálanum taka viðkomandi aðilar saman höndum um að öll börn, sem hafa til þess getu, geti lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Takist að ná því markmiði mun það hafa víðtæk áhrif á einstaklinga og þjóðfélagið allt.
Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög einsetji sér sameiginlega að bæta læsi barna á Íslandi til framtíðar, en í Hvítbók um umbætur í menntun er sett fram það metnaðarfulla markmið að 90% nemenda í 10. bekk nái lágmarksviðmiðum um að geta lesið sér til gagns í PISA könnuninni sem lögð verður fyrir árið 2018, en í dag ná einungis 79% nemenda því markmiði.
Öllum bæjar- og sveitarstjórum er boðið að undirrita Þjóðarsáttmála um læsi þar sem aðilar samningsins, ríki og sveitarfélög, skuldbinda sig til að vinna að því með öllum tiltækum ráðum að ná settu markmiði um læsi.