Efnahagsreikningur

Fjárhagur 8. hluti

Efnahagsreikningur felur í sér yfirlit um eignir sveitarfélagsins og skuldir þess. Mismunur á eignum og skuldum er eigið fé (höfuðstóll).

Veltufjármunir

Á eignahlið efnahagsreiknings eru færðir veltufjármunir og fastafjármunir.

Undir veltufjármuni eru færðar eignir sem falla undir lausafjármuni. Þar má nefna lausafé, birgðir, óinnheimtar tekjur og viðskiptakröfur. Undir veltufjármuni eru færðar eignir sem hægt er að umbreyta í lausafé innan eins árs.

Fastafjármunir

Undir fastafjármuni eru færðar aðrar eignir svo sem fasteignir, vélar, áhöld og tæki, eignahluti í félögum og langtímakröfur.

Mat á verðmæti stærri eigna í efnahagsreikningi sveitarfélaga er háð öðrum lögmálum en mat á eignum fyrirtækja sem starfa á almennum markaði. Fasteignir sveitarfélags sem notaðar eru við almenna þjónustu við íbúana eru ekki söluvara nema í algerum undantekningartilvikum. Því er markaðsverð þeirra yfirleitt ekki til. Meginregla er að unnið skuli út frá varfærnisreglu þegar þær eru metnar til verðs. Nýjar fasteignir eru færðar inn í efnahagsreikning á raunvirði en eldri eignir eru færðar á verðlagi hvers tíma. Þær eignir sveitarfélaga sem eru forsenda fyrir almennri þjónustu, s.s. skólar, íþróttamannvirki og aðrar þjónustubyggingar eru ekki veðandlag við lántöku. Land er yfirleitt ekki skráð til verðmætis í efnahagsreikningi sveitarfélags. Land á ekki að afskrifa þar sem það rýrnar ekki.

Á skuldahlið efnahagsreiknings eru færðar skammtímaskuldir og langtímaskuldir ásamt skuldbindingum sveitarfélagsins. Með skuldbindingum skal telja lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar sveitarfélags vegna einkaframkvæmdarsamninga og samninga vegna sölu og endurleigu fasteigna. Tilheyrandi eignir skulu færðar á eignahlið efnahagsreiknings.

Skammtímaskuldir

Undir skammtímaskuldir eru færðar skuldir við lánadrottna, viðskiptaskuldir, skuldir við eigin fyrirtæki og aðrar skammtímaskuldir. Skammtímaskuldir eru þær skuldir kallaðar sem á að greiða innan eins árs. Hlutfall milli veltufjármuna og skammtímaskulda á helst ekki að vera lægra en 1,0 (veltufjármunir / skammtímaskuldir). Ef hlutafallið er lægra en 1,0 (skammtímaskuldir hærri en veltufjármunir) þá er hætta á að erfitt geti reynst að greiða reikninga á gjalddaga. Dráttarvextir fara vaxandi í framhaldi af því.

Langtímaskuldir

Undir liðnum langtímaskuldir eru færðar langtímaskuldir við lánastofnanir og aðrar skuldir sem greiða skal á lengri tíma.

Eigið fé

Mismunur niðurstöðutölu eignahliðar á efnahagsreikningi og heildarskulda á efnahagsreikningi er eigið fé eða höfuðstóll sveitarsjóðs. Ef samanlagðar skuldir og skuldbindingar eru hærri en verðmæti eigna er eigið fé neikvætt (minna en ekki neitt).