Grátt svæði #16

Nokkur fjölmiðlaumræða varð fyrr í haust um akstursþjónustu fyrir rúmlega áttræða konu sem er inniliggjandi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Snerist umræðan að miklu leyti um það hvort lögheimilissveitarfélagi kon-unnar, Vesturbyggð, væri skylt að útvega henni akstur þannig að hún gæti sótt félagsstarf eldri borgara innanbæjar á Patreksfirði. Konan óskaði einnig eftir akstri þannig að hún gæti litið til með eignum á lögbýli sínu í sveitinni.

Beiðni sína byggði konan á því að hún væri bundin við hjólastól en hún lamaðist árið 2011 eftir alvarleg veikindi. Taldi hún að sveitarfélaginu væri skylt að veita henni akstursþjónustu á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks, enda þótt hún væri inniliggjandi á heilbrigðisstofnun.

Sveitarfélagið taldi sér á hinn bóginn ekki skylt að veita umbeðna þjónustu og vísaði til þeirrar verkaskiptingar að heilbrigðis- og öldrunarstofnunum beri að sjá inniliggjandi sjúklingum og vistmönnum fyrir nauðsynlegum akstri og ferðum út í samfélagið. Lög um málefni aldraðra gildi um þjónustu við 67 ára og eldri og mæli fyrir um lagaskyldur gagnvart þeim sem veikjast eða verða fyrir áföllum eftir það tímamark.  

Máli konunnar var skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Í forsendum nefndarinnar kemur m.a. fram að aldur hafi einn og sér ekki úrslitaáhrif um rétt til þjónustu ætlaðri fötluðu fólki. Tekið er fram að lög um málefni fatlaðs fólks og lög um málefni aldraðra skarist að einhverju leyti þar sem fatlað fólk getur verið eldra en 67 ára.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að sveitarfélaginu hafi borið að meta heildstætt þörf kæranda fyrir þjónustu og hvernig koma mætti til móts við óskir hennar. Í framhaldinu hafi borið að kanna hvort hin almenna þjónusta á heilbrigðisstofnuninni fullnægði þjónustuþörf kæranda. Hafi sú ekki verið raunin hafi borið að kanna hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga um málefni fatlaðs fólks og þannig að hún ætti rétt á ferðaþjónustu. Þar sem þetta heildstæða mat á þjónustuþörf hafði ekki farið fram heimvísaði nefndin málinu til sveitarfélagsins til endurnýjaðrar meðferðar.

Vesturbyggð tók málið aftur fyrir og framkvæmdi það mat sem mælt var fyrir um í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Í framhald-inu freistaði sveitarfélagið þess að setja saman tilboð til konunnar um akstur. Tilraunir sveitarfélagsins til þess að koma akstri í kring hafa hins vegar ekki skilað árangri enda aðstæður erfiðar: engar al-menningssamgöngur til staðar, né heldur leigubílar eða sérútbúnir bílar fyrir hjólastól sem hægt sé að semja um þjónustu við. Af þeirri ástæðu er nú horft til styrkja sem Tryggingastofnun ríkisins veitir hreyfihömluðum einstaklingum til kaupa á bifreið til eigin nota. Hefur  félags- og tryggingamálaráðherra nýlega ákveðið að hækka styrk-fjárhæðir umtalsvert til þess að auðvelda notendum að komast ferða sinna.

Sú akstursþjónusta sem hér um ræðir er eitt af 24 gráum svæðum í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu sem sam-

bandið hefur lýst í svokallaðri Grábók. Vandinn felst í þeim óljósu ábyrgðarskilum sem vikið er að í ofangreindum úrskurði þegar notendur óska eftir þjónustu eftir að 67 ára aldri er náð.

Þessi vandi virðist útbreiddur og hafa mörg sveitarfélög vakið athygli á því að heilbrigðis- og öldrunarstofnanir séu ekki að bjóða upp á akstur þrátt fyrir að lög um öldrunarþjónustu mæli fyrir um að félagslegri velferð aldraðra sé sinnt og þjónusta samhæfð. Virðist sem tilvikum sé að fjölga um að þessar stofnanir hafi breytt verklagi sínu frá því sem var meðan þjónusta við fatlað fólk var á hendi svæðisskrifstofa ríkisins.

Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga

Óljós ábyrgðarskil eru á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu annars vegar og fötlunarþjónustu hins vegar. Þessi óljósu skil koma m.a. fram þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur.  

Samband íslenskra sveitarfélaga telur að skýra eigi ábyrgðarskil þannig að þörfum einstaklinga sem verður fyrir skerðingum eftir 67 ára aldur eigi að mæta með öldrunarþjónustu skv. lögum nr. 125/1999, sem m.a. miðar að „félagslegri velferð aldraðra“.

Í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir öldrunarþjónustu frá janúar 2013 er fjallað um ferðir út í samfélagið svo komið verði til móts við þörf fyrir félagsleg samskipti og samveru (liður 3.1.4.5). Þar eru ennfremur ákvæði um akstur vegna sérhæfðra þátta á borð við sérfræðilæknis- og rannsóknaþjónustu (liður 3.1.4.11). Sambandið telur að þetta undirstriki ábyrgð stofnana á sviði heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

Sambandið telur jafnframt að skýra eigi skilin milli laga á þann veg að fötlunarþjónusta sem notandi nýtur falli ekki sjálfkrafa niður við 67 ára aldur. Einstaklingur geti því notið fötlunarþjónustu áfram ef það er talið viðkomandi einstaklingi í hag.

Hluti af fötlunarþjónustu snýr að akstri vegna tómstunda, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 . Í leiðbeinandi reglum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk , sem velferðarráðuneytið hefur gefið út, kemur fram að skylda sveitarfélags hvað varðar akstur vegna tómstunda, sé bundin við að jafna aðstöðumun varðandi notkun á almenningssamgöngum. Skyldan sé hins vegar ekki fyrir hendi þar sem engum almenningssamgöngum er til að dreifa.