Sextíu prósent lögbundinna verkefna finnskra sveitarfélaga mótast af reglum Evrópusambandsins


Ný skýrsla finnska sveitarfélagasambandsins leiðir í ljós að rúmlega helmingur verkefna og ákvarðana sveitarfélaga mótast af reglum ESB. Skýrslan sýnir að ESB hefur umtalsverð áhrif á um 60 prósent af hinum 535 lögbundnu verkefnum sveitarfélaga. Minnst voru áhrifin á sviði samgangna og samskipta (36%) og mest á sviði atvinnu- og efnahagsmála (80%).

ESB hefur einnig áhrif á ákvarðanir sveitarstjórna

Greining á dagskrám tíu sveitarstjórna gefur til kynna að rúmlega 50 prósent ákvarðana sveitarstjórna mótist af ESB reglum. ESB hefur áhrif á 47 prósent ákvarðana höfuðborgarinnar - lítill munur er á pólitískum ákvörðunum og stjórnvaldsákvörðunum - en áhrif eru mismikil eftir nefndum og ráðum. Minnst eru áhrifin á húsnæðismál (13%) en mest á æskulýðsmál (83%) og framkvæmdir (80%).

Bein og óbein áhrif ESB

Áhrif Evrópusambandsins eru mismunandi eftir sviðum. Áhrifin geta verið bein s.s. áhrif löggjafar (tilskipana, reglugerða) um opinber innkaup, ríkisaðstoð, orkunýtni, umhverfismál (úrgangmál, vatn, umhverfisvernd) og gagnavernd, eða óbein t.d. vegna stefnumótunar ESB og sjóða, s.s. um atvinnumál, félagsmál, heilbrigðismál, menntamál, innflytjendamál og byggðamál. Einnig má greina áhrif sem eru tilkomin vegna sambærilegra markmiða ESB og finnskra sveitarfélaga. Skýrslan gefur til kynna að bein áhrif á lögbundin verkefni séu um 17 prósent, óbein áhrif 20 prósent og að áhrif vegna sambærilegra markmiða séu um 26 prósent. Dagskrár sveitarstjórna gefa til kynna að bein áhrif séu 32 prósent, óbein áhrif 12 prósent, 9 prósent séu áhrif áþekkra stefnumiða.

Niðurstaða skýrslunnar er að ESB hafi áhrif á nærri öll áhrifasvið sveitarstjórnarstigsins þó í mismiklum mæli. Þetta er í samræmi við könnun sænska sveitarfélagasambandsins frá 2010 sem sýndi fram á að um 60% viðfangsefna sveitarstjórna, héraða og landsþinga í Svíþjóð mótast af reglum og stefnumótun Evrópusambandsins.  Ljóst er að Evrópureglur hafa einnig mikil áhrif á störf íslenskra sveitarfélaga á grundvelli EES-samningsins. Með samningnum fékkst aðgangur að innri markaði ESB gegn upptöku nær allrar löggjafar ESB um fjórfrelsið svokallaða og Íslandi ber að lögtaka flestar af reglum ESB vegna samkeppnismála, opinberra styrkja, neytendaverndar og vinnulöggjafar, svo og reglur á sviði umhverfismála o.fl. Þorri þessara reglna snertir verksvið sveitarfélaga með einum eða öðrum hætti.