Niðurstöður úr útkomuspá A-hluta sveitarfélaga, A-hluta fjárhagsáætlana og samstæðu (A- og B-hluta)

Nú liggja fyrir samandregnar niðurstöður úr útkomuspá A-hluta sveitarfélaga fyrir árið 2014, úr A-hluta fjárhagsáætlana sveitarfélaga og samstæðu sveitarfélaga (A+B hluta) fyrir árið 2015. Útkomuspáin byggir á upplýsingum frá 50 sveitarfélögum þar sem búa tæp 88% íbúanna og niðurstöður fjárhagsáætlana byggja á upplýsingum frá 64 sveitarfélögum þar sem búa yfir 99% íbúanna. Niðurstöðurnar eru færðar upp hlutfallslega fyrir landið í heild sinni.

Til frekari glöggvunar er sveitarfélögunum skipt í fjóra flokka við afkomugreiningu. Þeir eru:

  • Reykjavíkurborg
  • Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur
  • Vaxtarsvæði (sem eru sveitarfélög frá og með Borgarbyggð, suður um Suðurnes og til og austur á Suðurland til og með Árborg, Akureyrarkaupstaður og sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð)
  • Öll önnur sveitarfélög.

Mun betri og fljótari skil voru á fjárhagsáætlunum og útkomuspá í ár til Upplýsingaveitunnar sem vistuð er hjá Hagstofu Íslands en fyrir ári síðan. Það skiptir verulegu máli að geta haft fyrrgreindar niðurstöður handbærar eins snemma og hægt er.

Heildarniðurstaða útkomuspáa og fjárhagsáætlana eru í grófum dráttum í takt við það sem við var búist. Afkoman verður almennt heldur lakari á árinu 2014 og 2015 heldur en hún var á árinu 2013. Ástæðu þess er fyrst og fremst að rekja til mikilla launahækkana í kjölfar kjarasamninga á árinu 2014. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum verður um 2,0 prósentustigum lægra á árinu 2015 en það var á árinu 2013. Það er engu að síður allgott eða 7,7% að meðaltali. Þessi niðurstaða þýðir að það verður almennt minna fjármagn afgangs frá rekstrinum til að greiða niður afborganir skulda og til að fjármagna nýfjárfestingar.

Mjög fróðlegt er að reikna hlutfall milli langtímaskulda og veltufjár frá rekstri. Þá sést hve auðvelt sveitarfélögin eiga með að greiða langtímalán sín að fullu. Langtímaskuldir A-hluta sveitarsjóða eru um 165 ma.kr og veltufé frá rekstri er um 19 ma. kr. í fjárhagsáætlunum fyrir árið 2015. Það þýðir að sveitarfélögin væru að jafnaði 8,7 ár að greiða upp allar langtímaskuldir ef veltuféð yrði óbreytt og því væri öllu ráðstafað til niðurgreiðslu lána. Auðvitað er þetta gróf nálgun en engu að síður ágæt kennitala til að fá gróft mat á hve auðvelt hvert einstakt sveitarfélag á með að greiða niður skuldir sínar.

Rekstur og efnahagur stendur styrkum fótum

Sveitarfélögin halda áfram að greiða niður skuldir og styrkja fjárhagslega stöðu sína á þann hátt. Ný langtímalán eru lægri en afborganir langtímalána. Þetta er sama áhersla og á liðnum árum. Fjárfestingar drógust mikið saman á árunum eftir fjármálakrísuna en þær virðast vera að aukast á allra síðustu árum. Samdráttur í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga hefur haft áhrif á stöðu atvinnumála og almenn umsvif í samfélaginu.

Nokkur munur er niðurstöðum fyrir einstakra flokka eins og gefur að skilja. Hlutfall veltufjár frá rekstri er hæst hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkurborgar en lægst hjá Reykjavíkurborg. Aftur á móti er veltufjárhlutfall (hlutfall veltufjármuna og skammtímaskulda) lægst þar og á vaxtarsvæðum. Heildarskuldir eru lægstar á íbúa í Reykjavíkurborg en langtímaskuldir hæstar á hvern íbúa á vaxtarsvæðum. Heildartekjur á hvern íbúa eru hæstar í flokknum „Önnur sveitarfélög“ svo og heildarútgjöld.

Í heildina tekið stendur rekstur og efnahagur sveitarfélaga sterkum fótum. Vegna hækkandi launakostnaðar er nauðsynlegt að hafa markvisst og stöðugt eftirlit með framkvæmd fjárhagsáætlana til að tryggja að sett markmið fjárhagsáætlunar hafi gengið eftir við árslok.