Kínversk sendinefnd í heimsókn

Í febrúar 2015 sótti sambandið heim fjögurra manna sendinefnd frá Vináttusamtökum kínversku þjóðarinnar við önnur lönd (CPAFFC). Fyrir sendinefndinni fór fr. Zhang Ruoning, aðstoðaraðalframkvæmdastjóri Evrópudeildar vináttusamtakanna og með henni í för voru starfsmenn vináttusamtakanna, þau hr. Ji Zhaoyu, framkvæmdastjóri í Evrópudeildinni, og hr. Liu Chang og fr. Wang Fan, verkefnastjórar í sömu deild vináttusamtakanna.

Af hálfu sambandsins sátu fundinn Halldór Halldórsson formaður, Karl Björnsson framkvæmdastjóri, Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, og Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs sambandsins og Kínafari.

Fr. Zhang Ruoning kynnti starfsemi vináttusamtakanna, en þau héldu upp á 60 ára afmæli sitt á árinu 2014.  Meginmarkmið samtakanna hefur frá upphafi verið að auka vináttu og samskipti kínversku þjóðarinnar við aðrar þjóðir, auka alþjólegt samstarf, standa vörð um heimsfrið og stuðla að sameiginlegri þróun, eins og segir í samþykktum vináttusamtakanna.

Vináttusamtökin sinna einnig tengslum kínverskra sveitarfélaga og héraða við sveitarfélög og héruð í öðrum ríkjum. Samtökin eru virkir aðilar að Alþjóðasamtökum sveitarfélaga og borga (UCLG). Þá standa þau í samstarfi við sveitarfélög og borgir í Kína fyrir vinabæjaráðstefnum á tveggja ára fresti hér og þar í Kína. Síðasta ráðstefna var haldin í Xiamen í september 2014. Starfsmenn samtakanna í Beijing, höfuðborg Kína, eru um 300 og síðan eru 300 deildarskrifstofur vítt og breitt um landið. Starfsmenn vináttusamtakanna eru um 2.000 alls.

Vináttusamtökin hafa áhuga að stofna til aukinni tengsla við sveitarfélög á Norðurlöndum, bæði á tvíhliða og marghliða grunni. Sendinefndin hafði nokkrum dögum áður átt fund með fulltrúum danska sveitarfélagasambandsins (KL) í Danmörku.

Fram kom að þrjú íslensk sveitarfélög eiga kínverska vinabæi, það eru Hafnarfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð og Kópavogsbær. Um 200 vinabæjatengsl hafa verið mynduð milli kínverskra sveitarfélaga og sveitafélaga annars staðar í heiminum. Sum þeirra ganga vel en önnur ver.

Fr. Zhang Ruoning rifjaði upp fyrri samskipti sambandsins og vináttusamtakanna frá árinu 1996, þegar hún fór með sendinefnd sambandsins um Kína undir forsæti Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þáverandi formanns sambandsins, og sagðist eiga góðar minningar frá þeirri heimsókn. Hún bauð síðan formanni sambandsins, Halldóri Halldórssyni, ásamt sendinefnd í heimsókn til Kína, þegar vel stæði á.

Þær sveitarstjórnir sem áhuga hafa að kynna sér nánar hugsanlegt samstarf við kínversk sveitarfélög er bent á að hafa samband við Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins.