Minni sóun með betri stjórnun

- brýnar áskoranir í úrgangsmálum

Þó að endurnýting úrgangsefna hér á landi hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum er ennþá alltof miklum úrgangi fargað. Það á sérstaklega við um nýtingu matvæla. Fyrir liggja ógnvænlegar tölur um sóun matvæla í heiminum, sem benda til þess að einum þriðja af öllum matvælum sé hent. Um er að ræða um 1.300 milljónir tonna á ári, að verðmæti mörg hundruð milljarða króna. En það eru ekki bara matvæli sem fara í súginn. Stærsti hluti lífræns úrgangs er ennþá urðaður á Íslandi og gasið sem myndast við rotnun úrgangs er aðeins safnað og nýtt sem orkugjafi á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. Á landsbyggðinni er einungis ein stærri stöð, Molta í Eyjafirði, sem framleiðir moltu úr lífrænum úrgangi. Það eru því fólgin mörg tækifæri til betri nýtingar, s.s. Í úrvinnslu lífræns úrgangs sem orkugjafa í formi gass, og sem jarðvegsbætir.

Alltof stór hluti plastefna fer sömuleiðis ennþá til förgunar, með tilheyrandi umhverfisspjöllum. Plast er hægt að endurvinna og það er einnig góður orkugjafi ef endurgerð plasts úr plastúrgangi reynist ekki hagkvæm.

Aðgerðir til úrbóta

Til að bregðast við þessu hafa opinberir aðilar gert margvíslegar ráðstafanir. M.a. hafa sveitarfélög tekið upp meiri flokkun úrgangs, til að auðvelda endurnýtingu, í undirbúningi er stór gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu og umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp sem á að gera tillögur um hvernig best megi draga úr matarsóun. Tillögur þess starfshóps verða kynntar á degi umhverfisins í apríl nk. Ráðherra mun einnig birta, í fyrsta skipti, stefnu um úrgangsforvarnir á næstu 11 árum.

Málþing sambandsins 19. mars

Sambandið undirbýr nú málþing um stöðu úrgangsmála, sem haldin verður á Hótel Nordica í Reykjavík 19. mars nk. Titill ráðstefnunnar verður „Minni sóun – meiri hagkvæmni“. Sérstakur gestur á málþingsins verður Weine Wiquist, framkvæmdastjóri Avfall Sverige og formaður stjórnar Municipal Waste Europe, samtaka fyrirtækja á vegum sveitarfélaga í Evrópu sem sinna úrgangsmeðhöndlun. Málþingið verður opið öllum áhugamönnum um úrgangsmál en í lok þingsins verða umræður sem eru einungis ætlaðar kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og starfsmönnum sveitarfélaga.

Málþing um lífrænan úrgang 20. mars

Föstudaginn 20. mars, standa Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, Molta ehf. í Eyjafirði og nokkur svæðisbundin samtök sveitarfélaga að ráðstefnu um nýtingu lífræns úrgangs undir yfirskriftinni „Minni sóun – meiri nýting“. Ráðstefnan verður haldin í höfuðstöðvum Landgræðslunnar í Gunnarsholti.

Nánari upplýsingar um þessa viðburði birtast fljótlega á vefsíðu sambandsins.

Sveitarstjórnarmenn og áhugasamt starfsfólk sveitarfélaga er hvatt til að taka frá tíma fyrir þessar ráðstefnur.