Reykjavíkurborg hlýtur nýsköpunarverðlaunin 2014

Veiting nýsköpunarverðlauna í opinberri stjórnsýslu og þjónustu er samstarfsverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Rannís.

Sveitarfélög hafa þrisvar tekið þátt í viðburðinum. Tuttugu sveitarfélög hafa tilnefnt 68 verkefni til nýsköpunarverðlauna í þessi þrjú skipti.  Reykjavíkurborg hefur tilnefnt langflest verkefni eða 31. Þar á eftir koma Seltjarnarnesbær og Hafnarkaupstaður með fimm verkefni hvort.

Í fyrsta skipti sem sveitarfélög tóku þátt fékk Reykjavíkurborg viðurkenningu fyrir „Betri Reykjavík“ og Akureyrarkaupstaður viðurkenningu fyrir „Hæsnahöll“ við öldrunarheimili sitt.  Árið 2014 fékk Dalvíkurbyggð viðurkenningu fyrir verkefnið „Söguskjóður“ sem miðaði að því að skapa betri tengsl við foreldra barna af erlendum uppruna. Reykjanesbær, Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður fengu einnig viðurkenningu fyrir „Framtíðarsýn í menntamálum“. Reykjavíkurborg er fyrsta sveitarfélagið til að hljóta aðalverðlaunin fyrir “Geðheilsustöðina í Breiðholti”.  Sveitarfélögin stóðu sig mjög vel í ár. Þau hrepptu allar viðurkenningarnar nema eina. Hafnarfjarðarkaupstaður fyrir „Áfram: Ný tækifæri í Hafnarfirði“. Reykjavíkurborg fyrir „Næringarútreiknaðir matseðlar, örútboð og matarsóun“. Langanesbyggð vegna Grunnskólans á Bakkafirði fyrir „Vinnustofur- Fjölbreyttir kennsluhættir og nýsköpun“ og Seltjarnarnesbær fyrir „Ungmennaráð Seltjarnarness“.  Einu ríkisstofnanirnar sem fengu viðurkenningu að þessu sinni voru Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir „Veru: Öruggur rafrænn aðgangur að mínum heilbrigðisupplýsingum“.  

Á www.samband.is hefur verið sett upp nýsköpunarsíða og aðgengilegur gagnabanki um nýsköpunarverkefni sveitarfélaga sem hafa verið tilnefnd til verðlauna.