Orðsporið og dagur leikskólans

Föstudaginn 6. febrúar var Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í áttunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagsins er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla fagstarfi sem þar fer fram.

Í tilefni dagsins var viðurkenningin Orðsporið veitt í þriðja sinn. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað framúr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Ákveðið var að Orðsporið 2015 yrði veitt þeim rekstraraðila/sveitarfélagi sem þykir hafa skarað frum úr í að hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og/eða fjölga leikskólakennurum í sínum leikskóla/leikskólum. Var öllum frjálst að senda inn tilnefningu. Valnefnd var skipuð fulltrúum samstarfsaðila um Dag leikskólans, þ.e. Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra.

Sveitarfélögin sem voru tilnefnd eiga það sameiginlegt að hafa lagt sitt af mörkum í að efla faglega umgjörð við leikskóla sveitarfélagsins. Það hefur skilað sér í auknum faglegum áhuga og metnaði í framþróun í leikskólastarfi og verið starfsmönnum hvatning til frekari menntunar.

Viðurkenninguna að þessu sinni hlutu Kópavogur og Sveitarfélagið Ölfus. Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að í báðum sveitarfélögunum sé hvetjandi leikskólaumhverfi, sveigjanleiki til þess að starfsmenn leikskóla geti sinnt námi með vinnu, styrkveitingar vegna bókakaupa og námskostnaðar ásamt því að bjóða starfsmönnum launuð námsleyfi. Vegna metnaðarfullrar stefnu og framkvæmdar hennar hefur menntunarstig starfsmanna í báðum sveitarfélögunum hækkað auk þess sem leikskólakennurum hefur fjölgað. 25 starfsmenn í 19 leikskólum Kópavogsbæjar stunda nú nám í leikskólakennarafræðum og 13 starfsmenn leikskólans Bergheima í Ölfusi hafa lokið leikskólakennaranámi frá aldamótum.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti viðurkenninguna á Degi leikskólans við hátíðlega athöfn í Björnslundi, Norðlingaholti í Reykjavík. Börn úr leikskólanum Rauðhól sungu fyrir hátíðargesti og voru við leik og störf í lundinum á meðan athöfnin fór fram.