Virk velferðarstefna

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frumvarpið er unnið í samvinnu við sambandið og felur í sér að eyða óvissu sem gert hefur vart við sig um heimildir einstakra sveitarfélaga til að binda fjárhagsaðstoð almennum skilyrðum. Jafnframt eru lagðar til aðrar breytingar á lögunum m.a. til þess að stuðla að samræmi í reglum einstakra sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð.  

Sambandið er sammála þeirri útfærslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og væntir þess að lagabreytingar muni hafa jákvæð áhrif gagnvart vinnufærum einstaklingum sem óska eftir fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi, m.a. í gegnum aukið samstarf milli Vinnumálastofnunar og félagsþjónustunnar um málefni þess hóps sem býr við langtímaatvinnuleysi. Að mati sambandsins verður að tryggja samfellu milli stuðningskerfa þannig að vinnufærum einstaklingi sem fullnýtir rétt sinn til atvinnuleysisbóta standi áfram til boða sú aðstoð - og eftir atvikum aðhald - sem hann bjó við innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í því efni ber fyrst og fremst að horfa til einstaklingsins sjálfs og þess stuðnings sem hann þarf til þess að sjá sér og sínum farborða, fremur en telja aðstoð sveitarfélaga gagnvart þessum hópi vera af einhverjum öðrum meiði en sú sem önnur opinber framfærslukerfi veita.

Virk velferðarstefna í þessum anda stuðlar þannig að því að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar og er það í fullu samræmi við meginreglur félagsþjónustulaganna frá 1991. Sjá nánar á vef sambandsins.  

Frumvarpið er nú til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis, sem hefur óskað eftir umsögnum um það. Sambandið hvetur sveitarstjórnarmenn og aðra stjórnendur sveitarfélaga til þess að fara í gegnum málið á sínum vettvangi og koma á framfæri umsögn um það.