Alþjóðleg samtök borga og sveitarfélaga

 

CI_Letterhead_logoSamband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Alþjóðlegum samtökum borga og sveitarfélaga, „United Cities and Local Governments“ sem er skammstafað UCLG. Þetta eru nýleg samtök sem urðu til við samruna tveggja alþjóðlegra samtaka árið 2004. Samtökin eru stærstu samtök sveitarfélaga og borga í heimi. Sveitarfélagasambönd í næstum öllum löndum heimsins eiga aðild að samtökunum. Þetta felur í sér að meðlimir í UCLG eru fulltrúar 2/3 hluta af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og þar með meira en helmings íbúa jarðar. CEMR er Evrópudeild samtakanna.

Markmið samtakanna er að vera: „the united voice and world advocate of democratic local self government, promoting its values, objectives and interests, through cooperation between local governments, and within the wider international community“.

Af þessu leiðir að samtökin vinna að því að styrkja stöðu sveitarstjórnarstigsins gagnvart Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðabankanum. Þau leggja áherslu á að vekja athygli á hlutverki sveitarfélaga og borga í hnattrænu þróunarstarfi, sérstaklega til að ná fram aldamótamarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þau vinna að því að fá stuðning við hugmyndir um sjálfstjórn sveitarfélaga og dreifstýringu. Þau leitast við að styrkja staðbundið lýðræði á hnattræna vísu, styðja uppbyggingu landssambanda sveitarfélaga og að byggja upp og viðhalda gagnagrunni um staðbundið lýðræði.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki tekið virkan þátt í starfi samtakanna.