Evrópusamtök sveitarfélaga CEMR

Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélaga, „The Council of European Municipalities and regions“ sem er skammstafað CEMR. Samtökin eru stærstu samtök sveitarstjórnarstigsins í Evrópu. Aðild að þeim eiga yfir 50 landssambönd bæja, sveitarfélaga og héraða frá 39 löndum Evrópu. Samtökin eru í fyrirsvari fyrir um 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu.

Samtökin vinna að framgangi hugsjóna um sameinaða Evrópu sem grundvallist á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og héraða og lýðræðislegum gildum. Til þess að ná þessu markmiði leitast samtökin við að hafa áhrif á framtíð Evrópu með því að koma framlagi sveitarfélaga og héraða á framfæri, með því að hafa áhrif á evrópska löggjöf og stefnumótun, og með því að láta sveitarfélög og héruð skiptast á reynslu og stofna til samstarfs milli þeirra og aðila frá öðrum heimshlutum.

CEMR vinnur á mörgum sviðum, svo sem að byggða- og atvinnuþróunarmálum, samgöngumálum, umhverfismálum, jafnréttismálum og stjórnunarmálum. Nefndir og vinnuhópar samtakanna leitast við að hafa áhrif á evrópska löggjöf, sem verið er að vinna að, til að tryggja að það sé tekið tillit til hagsmuna sveitarstjórnarstigsins frá undirbúningi löggjafar ESB á frumstigi.

CEMR lýtur pólitískri yfirstjórn sem samanstendur af stefnumótunarnefnd, „Policy Committee“, sem heldur venjulega fundi tvisvar á ári. Það er aðal stjórnunarvettvangur CEMR. Öll aðildarríki CEMR eiga fulltrúa í nefndinni. Stjórn sambandsins tilnefnir þrjá fulltrúa til að taka þátt í störfum nefndarinnar.

Þriðja hvert ár er haldið allsherjarþing CEMR sem dregur að sér mörg hundruð evrópska sveitarstjórnarmenn. Framkvæmdastjórn tekur ákvarðanir á milli funda stefnumótunarnefndarinnar.

Aðalhagsmunastarf CEMR fer fram í vinnuhópum sem spanna helstu áherslusvið samtakanna. Hóparnir hittast flestir tvisvar á ári. Oftast eru það starfsmenn sveitarfélagasamtaka í Brussel eða sérfræðingar þeirra að heiman, sem taka þátt í fundum þessara hópa.

Sambandið hefur tilnefnt ákveðna sérfræðinga sem tengiliði við einstaka vinnuhópa CEMR. Þessir tengiliðir fá send fundargögn og mikilvægustu fundirnir eru sóttir af þeim eða starfsmanni Brusselskrifstofu sambandsins.

banner-GA-IC