Sveitarfélög og EES

Íslenska ríkið á aðild að yfirþjóðlegu samstarfi í gegnum EES-samninginn sem hefur víðtæk áhrif á starfsemi sveitarfélaga. Evrópsk löggjöf, sem innleidd er í íslenskan rétt á grundvelli samningsins leggur skyldur á herðar sveitarfélaga á ýmsum sviðum, svo sem á sviði umhverfismála, vegna stöðu þeirra sem vinnuveitenda og veitenda opinberrrar þjónustu, vegna innkaupa sveitarfélaga og fyrirtækjareksturs þeirra. EES-samningurinn tryggir sveitarfélögum einnig aðgang að ýmsum evrópskum samstarfsáætlunum. Þróunar- og alþjóðasvið sambandsins starfar að hagsmunagæslu fyrir sveitarfélög gagnvart EES-samningnum.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) gerir Íslandi, Liechtenstein og Noregi (EES-EFTA-ríkin) kleift að taka þátt í innri markaði ESB. Undir efnissvið samn­ings­ins falla frjálsir vöruflutningar, frjáls þjón­ustu­starf­semi, frjálsir fjármagnsflutningar og frjáls för fólks, sem og reglur á sviði samkeppni og ríkisaðstoðar, ásamt samvinnu á tilteknum sviðum, m.a. á sviði neyt­endavernd­ar, um­hverf­is­mála, heilbrigðismála og menntunar, sem tryggir að innri markaðurinn starfi eðlilega. Svo lagagerð sem ESB setur geti öðlast gildi í EES-EFTA-ríki þarf sameiginlega EES-nefndin að samþykkja ákvörðun um að taka hana upp í EES-samninginn. Markmiðið er að taka laga­gerð­ir upp í EES-samninginn eins nálægt gildis­töku­degi þeirra í ESB og mögulegt er svo tryggt sé að sömu reglur gildi á öllu EES-svæðinu. Árið 2019 opnaði EFTA vefsíðu þar sem fjallað er um á einfaldan hátt hvernig ESB-reglur verða að EES-reglum.

Brussel-skrifstofa sambandsins

Haustið 2006 tók til starfa skrifstofa sambandsins í Brussel sem heyrir undir þróunar- og alþjóðasvið. Starfsemin er styrkt er af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Óttar Freyr Gíslason veitir skrifstofunni forstöðu. Skrifstofan annast almenna hagsmunagæslu fyrir sveitarfélög gagnvart EES-samningnum og aðstoðar sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra við að nýta sér tækifæri í evrópskum samstarfsáætlunum.