Stofnanir Evrópusambandsins

eu

Helstu stofnaninir Evrópusambandsins eru framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið, ráðherraráðið, leiðtogaráðið og dómstóll ESB.

Framkvæmdastjórnin

Framkvæmdastjórn ESB (e. European Commission) fer með framkvæmdavald ESB, en hún er skipuð 28 framkvæmdastjórum (e. Commissioners). Hvert aðildarríki tilnefnir einn fulltrúa í framkvæmda-stjórnina, en hver fulltrúi fer með tiltekið málefnasvið. Hlutverk framkvæmdastjórnarinnar er tryggja virkni hins sameiginlega markaðar og vernda hagsmuni ESB inn á við, sem og gagnvart öðrum ríkjum og samtökum. Framkvæmdastjórnin setur fram tillögur að nýrri löggjöf er varða innri markaðinn og tekur þátt í að skapa, framfylgja og hafa eftirlit með ESB rétti og því að aðildarríkin og aðrir uppfylli þær skuldbindingar sem sáttmálar ESB mæla fyrir um. Framkvæmdastjórnin hefur umboð til samningagerðar við önnur ríki og fjölþjóðleg samtök og kemur fram fyrir hönd aðildarríkjanna í slíkum samningaviðræðum. Hún hefur einnig hlutverk sem málamiðlari, þar sem hún leitast við að aðstoða aðildarríkin við fá niðurstöðu í deilumálum. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er kjörinn til fimm ára og er hann æðsti yfirmaður um 26.000 starfsmanna. 

Evrópuþingið

Evrópuþingið

(e. European Parliament) fer með lagasetningarvald ESB ásamt  europarl ráðherraráðinu. Samþykki Evrópuþingsins þarf fyrir skipan nýrrar framkvæmdastjórnar og fyrir fjárlögum ESB.  Alls eru 751 þingmenn kosnir til þingsins með beinni kosningu í aðildarríkjunum á fimm ára fresti. Völd þingsins fara eftir þeim málaflokkum sem eru til umræðu en flestar ákvarðanir eru teknar með svokölluðu samákvörðunarferli (e. co-decision procedure). Í slíku ferli hefur Evrópuþingið völd til jafns á við ráðherraráðið. Samþykki þingsins þarf fyrir fjárlögum Evrópusambandsins en Evrópuþingið hefur nýtt sér völd sín á þessu sviði til að hafa áhrif á alla þá málaflokka sem hafa útgjöld í för með sér. Ekki er unnt að skipa fulltrúa í nýja framkvæmdastjórn né samþykkja aðildarsamning við nýtt aðildarríki án samþykkis meirihluta þingmanna. Á þinginu eru lausbundnar stjórnmálahreyfingar eða stjórnmálahópar þar sem þingmenn frá mismunandi aðildarríkjum vinna saman. Þingið kemur reglulega saman í Strasbourg og Brussel.

Ráðherraráðið

Ráðherraráðið (e. Council of the European Union) er skipað ráðherrum aðildarríkjanna. Ráðherraráðið fer með löggjafarvald í ESB ásamt Evrópuþinginu, undirritar samninga við önnur ríki og samtök, samhæfir stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna í mörgum málaflokkum og hefur ákveðið framkvæmdavald. Hvert aðildarríkjanna á einn fulltrúa í ráðherraráðinu, óháð íbúafjölda. Samsetning ráðsins fer eftir málaflokkum. Þannig funda landbúnaðarráðherrar um landbúnaðarmál, umhverfismálaráðherrar um umhverfismál o.s.frv. Fundir ráðherraráðsins eru undirbúnir af sérstakri nefnd fastafulltrúa aðildarríkjanna í Brussel (f. Comité des représentants permanents, COREPER), en þar eiga sæti sendiherrar aðildarríkjanna gagnvart ESB. Nefndin hefur sér til aðstoðar um 150 nefndir sérfræðinga frá aðildarríkjunum sem undirbúa þau mál sem liggja fyrir ráðinu. Flest mál eru leyst á fundum COREPER og sérfræðinganefndanna og kalla því einungis á formlega samþykkt ráðherraráðsins, en þau mál sem ekki tekst að leysa af COREPER eru tekin til umfjöllunar í ráðherraráðinu. Ráðið tekur ákvarðanir ýmist með einróma samþykki (100% atkvæða), auknum meirihluta (73,9%) eða með einföldum meirihluta (51%) eftir því hvaða málefni er til umræðu. Atkvæðavægi ríkjanna fer eftir stærð þeirra.

Leiðtogaráðið

Leiðtogar áðið (e. European Council) er skipað leiðtogum aðildarríkjanna og forseta framkvæmdastjórnarinnar (án atkvæðisréttar). Leiðtogaráðið er drifkrafturinn í hinu pólitíska samstarfi ríkjanna og útfærir pólitíska stefnu varðandi þróun sambandsins. Leiðtogaráðið hefur ekki löggjafarvald en tekur ákvarðanir í mikilvægustu pólitísku málunum og þar sem viðkomandi ráðherrahópur hefur ekki náð samstöðu. Lissabon sáttmálinn styrkti stöðu ráðsins sem nú tilnefnir forseta framkvæmda-stjórnarinnar og utanríkisráðherra sambandsins. Þá getur ríki vísað umdeildri löggjöf frá ráðherraráðinu til leiðtogaráðsins með sk. emergency break procedure þrátt fyrir að það hafi orðið undir í atkvæðagreiðslu. Kjörtímabil forseta ráðsins er 2.5 ár. Aðildarríkin skiptast á um að fara með formennsku  í 6 mánuði í senn en samstarfið fer fram í gegn um þriggja ríkja samráðsvettvang; að ríki sem gegnir formennsku hverju sinni starfar með því ríki sem gegndi formennskunni  á undan og því ríki sem tekur við. 

Evrópudómstóllinn

Evrópudómstóllinn

 (e. Court of Justice of the European Union) í Lúxemborg túlkar sáttmála sambandsins og lagasetningu og ráðleggur dómstólum aðildarríkjanna. Dómstóllinn getur fellt dóma í öllum þeim málum er falla undir sameiginlega löggjöf og reglur og getur kveðið dóm yfir einstaklingum, fyrirtækjum og ríkjum. 28 dómarar sitja í dómstólnum, einn frá hverju aðildarríki, og eru þeir skipaðir til 6 ára í senn. Evrópudómstóllinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þróun samstarfsins innan ESB og hefur ekki hikað við að beita víðum lögskýringum og vísa til markmiða lagagreina fremur en orðanna hljóðan. Dómstóllin samanstendur af þremur dómstólum sem hafa frá upphafi kveðið upp samanlagt u.þ.b  15000 dóma.

Seðlabanki Evrópu

Seðlabanki Evrópu (European Central Bank) fer með peningamálastefnu þeirra ríkja sem aðild eiga að myntbandalaginu. Seðlabankinn fylgir gengisstefnu sem stuðlar að lágri verðbólgu og getur bankinn aðlagað vaxtastigið til þess að ná þessu markmiði. Aðsetur bankans er í Frankfurt í Þýskalandi.

Aðrar stofnanir

Efnahags- og félagsmálanefndin

 (e. European Economic and Social Commitee) er skipuð fulltrúum samtaka atvinnulífsins og öðrum samtökum er láta sig varða vinnu- og félagsmál.

Svæð anefndin (e. Committee of the Regions) er skipuð fulltrúum bæjar- og héraðsstjórna. Nefndinni er ætlað að tryggja aðkomu héraða og sveitarstjórnarstigsins að ákvörðunartöku ESB á fyrstu stigum. Samráð framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins og þingsins er lögbundið á helstu sviðum er snerta byggðamál. Nefndin veitir m.a. umsagnir um lagafrumvörp sem snerta sveitarstjórnarstigið, m.a. tillögur á sviði umhverfismála, menntamála, byggðamála og samgöngumála. Nefndin getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði.

Svæðanefndin hittist fullskipuð (350 fulltrúar) fimm til sex sinnum á ári en auk þess starfa sex fastar undirnefndir sem hittast jafnoft.  Nefndin á samráð við samtök sveitarfélag á lands- og Evrópuvísu og ýmis önnur hagsmunasamtök er vinna að málum sem snerta starf hennar.  Það er mismunandi eftir ríkjum hvernig fulltrúar eru valdir, lágmarksfjöldi fulltrúa frá hverju landi er fimm, gera má ráð fyrir fimm til sex fulltrúum frá Íslandi. Danir eiga t.d. níu fulltrúa í nefndinni, þ.e. sex frá sveitarfélagasambandinu og þrjá frá héraðasambandinu. Oft er um að ræða sömu einstaklinga og sitja í sveitarstjórnarráði Evrópuþingsins eða taka þátt í alþjóðlegu starfi á vegum sveitarfélagasambanda.  Samkvæmt reglum ESB eiga fulltrúar í nefndinni að geta talað eigin tungumál á fundum nefndarinnar en nokkur misbrestur hefur verið á því (vegna tæknilegra örðugleika) og því skiptir máli að fulltrúarnir séu þokkalega talandi á ensku.

Greitt er fyrir setu á öllum fundum auk ferða- og uppihaldskostnaðar.  Líkt og á Evrópuþinginu gegna fulltrúar í Svæðaanefndinni tveimur hlutverkum, þ.e. þeir eru fulltrúar viðkomandi ríkis en taka einnig þátt í starfi stjórnmálaflokka og verða hluti af þeim.  Þetta endurspeglast m.a. í atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúar gæta ýmist hagsmuna einstakra svæða, t.d. Norðurslóða, eða flokka.

Það þykir eftirsóknarvert að vera talsmaður (e. rapporteur) Svæðanefndarinnar fyrir einstök mál, enda hafa þeir mikil áhrif – ekki bara innan héraðanefndarinnar heldur líka á Evrópuþinginu og jafnvel einnig í ráðherraráðinu.  Það fylgist reyndar oft að fulltrúar sömu þjóðar taka að sér að vera talsmenn héraðanefndarinnar og þingsins í sama máli.

Fjórar stjórnmálahreyfingar er að finna í Svæðanefndinni, hinar hefðbundnu evrópsku hreyfingar:  European People's Party (EPP), the Party of European Socialists (PES), the Group of the Alliance of Liberals and Democrats for Europe (ALDE) and Union for Europe of the Nations - European Alliance (UEN-EA). Stjórnmálaflokkarnir skipa talsmenn en Svæðanefndin greiðir fyrir allan kostnað við m.a. við sérfræðivinnu, ferðalög o.fl. 

Meginhlutverk Brussel-skrifstofa sveitarfélagasambanda er að aðstoða fulltrúa í Svæðanefndinni og halda tengslum við skrifstofu hennar. Um 70% af starfsemi skrifstofu danska sveitarfélagasambandsins fer t.d. í þetta starf en starfsfólk hennar undirbýr efni og sækir alla fundi með sínum fulltrúum.  Annað starf miðar að hagsmunagæslu m.a. gagnvart þingi og ráðherraráði.  Talsvert samstarf er við danska þingmenn og leita þeir mjög gjarnan til starfsmanna sveitarfélagasambandsins í Brussel til að fá upplýsingar og ráðgjöf.
Umboðsmaðurinn (e. European Ombudsman) tekur á móti kvörtunum frá þeim borgurum sambandsins er telja sig hafa orðið fyrir órétti af hendi stjórnsýslu ESB.