Vinabæjarsamstarf

Twinning

Löng hefð er fyrir vinabæjarsamstarfi íslenskra sveitarfélaga, fyrst og fremst við norræn sveitarfélög. Hið hefðbundna norræna vinabæjarsamstarf hefur einkum verið á sviði menningar- og æskulýðsmála. Hin síðari ár hefur komið fram vaxandi áhugi á að nýta vinabæjarsamstarf til að skiptast á þekkingu og reynslu á fleiri sviðum, svo sem á sviði rekstrar og stjórnunar. Einnig hefur komið fram aukinn áhugi á að nýta það til að efla atvinnulíf í sveitarfélögum og miðla þekkingu á sveitarstjórnarmálefnum til landa sem er komin skemmra á veg í uppbyggingu sveitarstjórnarstigsins en hér á Íslandi.

Út er komin skýrsla sem Róbert Hlynur Baldursson vann fyrir Þekkingarsetur Þingeyinga. Skýrslan ber heitið Vinabæjasamstarf þingeyskra sveitarfélaga – ávinningur og annmarkar. Þrátt fyrir að í skýrslunni sé lögð áhersla á tengsl þingeyskra sveitarfélaga við erlend sveitarfélög, er einnig nokkuð ítarleg umfjöllun um almenn tengsl milli sveitarfélaganna, farið er ofan í hvaða þættir einkenna farsæl sambönd og hvers vegna ákveðin sveitarfélög taka upp slíkt samstarf.