Barnaverndarmál

Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í barnaverndarmálum. Í barnaverndarlögum nr. 80/2002 segir að á vegum sveitarfélaga skuli starfa barnaverndarnefndir sem gegni eftirfarandi hlutverki:

Eftirlit. Barnaverndarnefndir skulu kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.

Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.

Önnur verkefni. Barnaverndarnefndir hafa með höndum önnur þau verkefni sem þeim eru falin í þessum lögum og öðrum lögum. Heimilt er sveitarstjórn að fela barnaverndarnefndum frekari verkefni sem varða aðstæður barna og ungmenna í umdæmi hennar.

Fámennari sveitarfélög skulu hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um kosningu barnaverndarnefndar. Samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skal ekki vera undir 1.500, samkvæmt barnaverndarlögum.

Þá eru í lögunum ákvæði um framkvæmdaáætlanir sveitarfélaga í barnaverndarmálum.

Sveitarstjórnir skulu marka sér stefnu og gera framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins. Framkvæmdaáætlun sveitarfélags í barnaverndarmálum skal send félagsmálaráðuneyti og Barnaverndarstofu.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Barnaverndarstofa fara með yfirstjórn barnaverndar og sinna eftirlitshlutverki með barnaverndarnefndum sveitarfélaga. Á vef félagsmálaráðuneytisins er að finna nánari upplýsingar um barnavernd og hlutverk sveitarfélaga í þeim efnum.

Fósturúrræði

Barnaverndarstofu er ætlað að hafa yfirumsjón með fósturmálum, þar á meðal að sjá um að meta hæfni væntanlegra fósturforeldra. Enginn má taka barn í fóstur nema með samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi hans, sbr. 36. gr. laga nr. 58/1992. Barnaverndarstofa skal veita barnaverndarnefndum liðsinni vegna fósturráðstafana með eftirfarandi hætti:

  • Að halda námskeið fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra um fósturmál.
  • Að auglýsa eftir fósturforeldrum og meta hæfni þeirra eftir reglum sem Barnaverndarstofa setur. Barnaverndarstofa skal sjá til þess að hæfir fósturforeldrar séu til taks fyrir barnaverndarnefndir þegar á þarf að halda.
  • Að sjá um að skipuleggja námskeið fyrir þá sem hyggjast gerast fósturforeldrar. Sömuleiðis skal stofan halda námskeið fyrir starfandi fósturforeldra í samráði við samtök þeirra.
  • Að veita starfsmönnum barnaverndarnefnda leiðbeiningar og ráðgjöf um mál einstakra fósturbarna þegar eftir því er leitað og eiga frumkvæði að því sé talin ástæða til. Einnig skal aðstoða barnaverndarnefnd eða starfsmenn hennar við val á fósturforeldrum og leiðbeina þeim um önnur atriði sem lúta að fóstri barns.

Tilkynningarskylda til barnaverndarnefndar.

Almenningur hefur tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarnefnd en hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Auk þess hafa aðilar sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og verða í starfi sínu varir við að börn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, skyldu til að tilkynna grun sinn til barnaverndarnefndar.

Lögreglan hefur ennfremur sérstaka tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarnefnd. Bæði þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn af barni eða gegn því og þegar lögregla verður þess vör að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða að barn stofni eigin heilsu og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi stétta.

Bakvakt hjá barnaverndarnefndum – 112.

Þó nokkur hluti barnaverndarmála eða tilkynninga vegna barna kemur upp utan dagvinnutíma í sveitarfélögunum. Þar má sérstaklega nefna yfirheyrslur vegna ungmenna hjá lögreglu, neyðarástand sem skapast á heimilum sem krefst tafarlausrar íhlutunar og ráðstafana starfsmanna barnaverndarnefndar. Neyðarsími allra barnaverndarnefnda í landinu er alla daga vikunnar eftir almennan skrifstofutíma í neyðarsíma 112.

Umsögn í umgengnismálum.

Hlutverk barnaverndarnefndar í umgengnismálum er að veita sýslumannsembættum umsögn og/eða koma með tillögur um það hvernig umgengni skuli háttað þegar forsjáraðilar deila. Sýslumannsembættin óska þá formlega eftir umsögn og/eða tillögum frá barnaverndarnefnd í ákveðnum málum í hverju sveitarfélagi fyrir sig.