Forvarnamál

Forvarnir geta verið margháttaðar og beinst að bæði einstaklingum og ólíkum hópum samfélagsins. Það er hins vegar sameiginlegt fyrir forvarnir að þeim er ávallt ætlað að koma í veg fyrir að vandamál nái að þróast hjá einstaklingi eða í samfélaginu í heild. Forvörnum er einnig ætlað að draga úr vandamálum sem eru til staðar eða hið minnsta koma í veg fyrir að vandamálin aukist á einn eða annan hátt.

Með samhæfðu og öflugu forvarnastarfi ríkis og sveitarfélaga mætti koma í veg fyrir miklar mannlegar þjáningar og spara umtalsverða fjármuni. Eins og staðan er í dag fer meginhluti fjárveitinga hins opinbera í að reyna að ráða bót á meinum, í staðinn fyrir að reyna að koma í veg fyrir þau.  Í nágrannalöndum okkar eru stjórnvöld markvisst að reyna að breyta áherslum í átt til meiri forvarna og þar stuðlar uppbygging opinbera kerfisins og verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga að því. Dönsk sveitarfélög þurfa t.d. að greiða ákveðna upphæð fyrir hvern íbúa sem leggst inn á sjúkrastofnanir ríkisins. Þetta er gert til að skapa hvata fyrir sveitarfélög til að nýta önnur og ódýrari úrræði sem geta komið í veg fyrir stofnanainnlögn. Þar í landi bera sveitarfélög ábyrgð á frumheilsugæslu og endurhæfingu, sjá á þessum tengli. Norðmenn eru að fara inn á svipaðar brautir, sjá meðfylgjandi tengil.

Í þessum löndum bera sveitarfélögin heildstæðari ábyrgð á grunnvelferðarþjónustunni og þar er því meiri hvati fyrir þau að leggja áherslu á forvarnastarf og koma þannig í veg fyrir að vandamál nái að þróast. Hér á landi bera hins vegar bæði  ríki og sveitarfélög ábyrgð á grunnvelferðarþjónustunni og því er hætta á að hvor aðili fyrir sig reyni að skjóta sér undan ábyrgð á forvörnum. Einstök sveitarfélög hafa þó tekið upp merkið og lagt áherslu á forvarnastarf. Sambandið hefur safnað saman upplýsingum frá þessum sveitarfélögum, sjá hér til hægri.