Húsnæðisstuðningur

IMG_3368Nýtt fyrirkomulag á opinberum húsnæðisstuðningi tók gildi 1. janúar 2017

Sveitarfélögin veita íbúum sínum margvíslega aðstoð í húsnæðismálum auk þess sem grundvöllur allrar uppbyggingar á húsnæði er lagður í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Hlutverk Sambands íslenskra sveitarfélaga er m.a. að liðsinna sveitarfélögum í slíkum verkefnum á grundvelli þeirrar stefnu sem mörkuð er á landsþingum sambandsins.

Í stefnumörkun sambandsins 2014–2018 segir m.a. að sambandið skuli vinna að því:

 • Að húsnæðisbætur miðist við þarfir einstaklinga og fjölskyldna óháð búsetuformi eða tegund húsnæðis. Þessi stuðningur verði verkefni ríkisins og fjármagnaður af ríkissjóði, en þess jafnframt gætt að um samtímastuðning verði að ræða. Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna félagslegra aðstæðna (annarra en lágra tekna) verði áfram á hendi sveitarfélaga.
 • Að stuðla að fjölbreyttum og sveigjanlegum húsnæðismarkaði sem tryggir öllum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Sérstaklega verði hugað að því hvernig tryggja megi framboð af ódýru og öruggu húsnæði til leigu eða kaups fyrir núverandi og næstu kynslóðir ungs fólks.
 • Að til verði öflugur og almennur leigumarkaðar, þannig að leigjendur íbúðarhúsnæðis hafi möguleika á langtímaleigu til að tryggja búsetuöryggi þeirra.  Skilgreint verði hvernig styðja megi kröftuglega við þróun leigumarkaðar með aðkomu sveitarfélaga, ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila. Stofnframlög verði sérstaklega skoðuð í því sambandi. Gætt skal að því að tryggja félagslegan fjölbreytileika í einstökum hverfum sveitarfélaga.
 • Varasjóður húsnæðismála verði áfram bakhjarl sveitarfélaga á svæðum þar sem brestur er á húsnæðismarkaði. Teknar verði upp viðræður við ríkisvaldið um hlutverk og fjármögnun sjóðsins í tengslum við áætlanir um framtíðarskipan húsnæðismála.
 • Að við fyrirhugaðar breytingar á aðkomu ríkisins að húsnæðislánamarkaði verði lögð áhersla á að tryggja áfram jafnan rétt allra landsmanna, hvar sem þeir búa, til húsnæðislána á viðráðanlegum kjörum.
 • Að ná fram, í samstarfi við ríkið, lækkun byggingarkostnaðar án þess að skerða aðgengi.  Það verði gert með því að stuðla að lækkun lands/lóðaverðs.  Þá verði gefinn sveigjanleiki við útfærslu á byggingareglugerð sem leiðir til lækkunar á kostnaði.

Um þessar mundir er unnið að innleiðingu á nýju fyrirkomulagi opinbers húsnæðisstuðnings þar sem sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki. Þetta fyrirkomulag samanstendur af eftirfarandi meginþáttum:

 1. Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga
 2. Húsnæðisbætur ríkisins
 3. Sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga  
 4. Úthlutun á húsnæðisúrræðum
 5. Ráðgjöf 

Nýtt fyrirkomulag opinbers húsnæðisstuðnings byggist á stefnumörkun sem fram fór á árunum 2011–2015 undir formerkjum Framtíðarskipunar húsnæðismála. Innleiðingin fer einkum fram á grundvelli laga sem Alþingi hefur nýlega samþykkt og reglugerða sem útfæra lagarammann.

Lagastoð og reglugerðir

Lög um almennar íbúðir       

 • III. kafli fjallar um stofnframlög
 • V. kafli fjallar um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga
 • VII. kafli fjallar um eftirlit
 • Reglugerð nr. 555/2016, um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir
 • Bréf Íbúðalánasjóðs, dags. 13. júlí 2016 um stofnframlög

Lög um húsnæðisbætur       

Breyting á húsaleigulögum   

Breyting á lögum um húsnæðissamvinnufélaög

Breytt verka- og kostnaðarskipting vegna húsnæðisstuðnings við leigjendur