Ráðgjöf í húsnæðismálum

Sveitarfélögin veita upplýsingar og ráðgjöf um húsnæðismál. Ákvæði um þessi verkefni koma fram í lögum, annars vegar um húsnæðismál og hins vegar um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar segir meðal annars að sveitarfélög skuli bjóða upp á félagslega ráðgjöf, en markmið hennar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar, og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Hér er auk annars vísað til fjármála og húsnæðismála en áréttað er að ráðgjöf sé ætíð beitt í eðlilegu samhengi við fjárhagsaðstoð og aðra þjónustu sem sveitarfélög veita. Lögð er áhersla á samvinnu við aðra þá aðila sem veita opinberan stuðning (svo sem Vinnumálastofnun vegna húsnæðisbóta).

Gildandi lög um húsnæðismál gera ráð fyrir því að hver sveitarstjórn skipi húsnæðisnefnd, sem m.a. er ætlað að veita almennar upplýsingar og ráðgjöf um húsnæðismál og húsaleigusamninga. Auk þess skal aðstoða aldraða og fatlað fólk svo og samtök þeirra við öflun húsnæðis, með ráðgjöf, við útboð, byggingarframkvæmdir, samningsgerð o.fl.

Í framkvæmd er það svo að í fæstum sveitarfélögum eru starfandi sérstakar húsnæðisnefndir í dag heldur eru verkefni þeirra falin annarri fastanefnd sveitarstjórnar, oft félagsmála- eða velferðarráði. Í frumvarpi sem lagt var fram í ágúst 2016, kom fram tillaga um að fella brott það ákvæði að sveitarfélagi væri skylt að hafa sérstaka húsnæðisnefnd en í stað þess verði hverri sveitarstjórn fyrir sig frjálst að ákveða hvort sveitarstjórn fari sjálf með verkefnið eða felur það annarri nefnd á vegum sveitarfélagsins. Frumvarpið varð ekki útrætt á sumarþinginu 2016.

Húsnæðisáætlanir

Miðað er við að hvert sveitarfélag geri áætlun um þörf fyrir íbúðarhúsnæði innan sinna marka auk þess að hafa milligöngu um, og eiga frumkvæði að því, að aflað verði húsnæðis og aðstoða einstaklinga við húsnæðisöflun. Lagaákvæði um þetta verkefni sveitarfélaga eru í mótun (nóvember 2016), en gengið hefur verið út frá því að um verði að ræða áætlanagerð til fjögurra ára í senn um það hvernig þörfum fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu verði mætt. Byggt verði á reglubundnum greiningum, svo sem í tengslum við gerð aðalskipulags, og hvernig þarfir fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu þróast með tilliti til mismunandi búsetuforma. Einnig þarf hvert sveitarfélag að taka afstöðu til endurskoðunar á áætlunum með tilliti til niðurstöðu þarfagreininga.

Leiðbeiningarskylda við meðferð umsókna

Í framtíðarskipan húsnæðismála er gengið út frá því að sótt sé um opinberan húsnæðisstuðning, hvort sem um er að ræða stofnframlög eða bætur til einstaklinga og fjölskyldna. Af hálfu sveitarfélaga byggist meðferð umsókna á reglum sem hvert þeirra fyrir sig setur sér, að teknu tilliti til aðstæðna í samfélaginu á hverjum stað. Reglur sveitarfélaga geta því verið mismunandi, m.a. þar sem sveitarfélögum er ekki skylt að lögum að veita stofnframlög. Greiðsla húsnæðisstuðnings til viðbótar húsnæðisbótum er hins vegar lögbundið verkefni sveitarfélaga og hverju þeirra ætlað að setja sér reglur þar um.

Þá er vert að undirstrika að umsóknirnar eru í grunninn ólíkar, þar sem tilteknir lögaðilar sækja um stofnframlög sveitarfélaga en einstaklingar og fjölskyldur sækja um sérstakan (viðbótar) húsnæðisstuðning. Leiðbeiningar og ráðgjöf verða að miðast við stöðu umsækjanda en jafnframt stuðla að því að viðkomandi fái þá úrlausn sem hann á rétt til. Ákvörðun sveitarfélags, sem lýkur meðferð umsóknar, telst stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og ber því að veita viðtakanda ákvörðunar kæruleiðbeiningar, ef umsókn hans hefur ekki verið tekin til greina að öllu leyti. Hvort sem viðtakandi er lögaðili vegna umsóknar um stofnframlag eða einstaklingur vegna umsóknar um sérstakan húsnæðisstuðning, gildir almennt að ákvörðun sveitarfélags verður kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Nefndin kannar hvort ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur hlutaðeigandi sveitarfélags.