Spurt og svarað um húsnæðismál

Spurt og svarað um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga
Spurt og svarað um ráðgjöf, húsnæðisáætlanir og leiðbeiningarskyldu
Spurt og svarað um stofnframlög
Spurt og svarað um úthlutun á húsnæði
Spurt og svarað um Varasjóð húsnæðismála
Spurt og svarað um húsnæðisstuðning við 15-17 ára börn á heimavistum

Spurt og svarað um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga:

Verður öllum sveitarfélögum skylt að veita húsnæðisstuðning til viðbótar húsnæðisbótum ríkisins?

Já, sérstakur húsnæðisstuðningur verður lögbundið skylduverkefni sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2017.

„Sérstakur húsnæðisstuðningur“ - er það ekki bara annað heiti á sérstökum húsaleigubótum?

Nei, frá og með 1. janúar 2017 byggist stuðningur á nýjum og breyttum lagagrundvelli.

Mega reglur um sérstakar húsaleigubætur gilda áfram?

Þar sem lagagrundvöllurinn breytist verða þau sveitarfélög sem í dag veita sérstakar húsaleigubætur að endurskoða sínar reglur. Miða ætti við að endurskoðun reglna verði lokið fyrir áramót. Þeirri endurskoðun þarf að ljúka áður.

Nýjar reglur sækja stoð í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga – hvaða þýðingu hefur það?

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga hafa að geyma nokkrar meginreglur:

  1. Aðstoð er veitt að undangengnu mati á stöðu umsækjanda og að teknu tilliti til félagslegra aðstæðna.
  2. Aðstoð er hjálp til sjálfshjálpar og kemur því reglulega til endurskoðunar.
  3. Aðstoð er alltaf veitt samhliða félagslegri ráðgjöf.

Reglur sveitarfélaga um húsnæðisstuðning þeirra ættu að endurspegla þessar meginreglur.

Hvernig á að taka tillit til félagslegra aðstæðna umsækjenda um húsnæðisstuðning?

Þetta má meðal annars útfæra með matsviðmiðum. Dæmi um slík viðmið koma fram í leiðbeinandi reglum sem velferðarráðuneytið hefur gefið út.

Eru leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins bindandi fyrir sveitarfélögin?

Nei, um er að ræða leiðbeiningar sem gefnar eru út til þess að stuðla að samræmi. Útgáfa ráðuneytisins er því ekki bindandi og hlutaðeigandi sveitarstjórn getur ákveðið efnislega aðrar reglur. Í því tilviki er rétt að rökstuðningur sé tekinn saman fyrir fráviki, þannig að skýra megi út forsendur þess fyrir umsækjendum.

Hvaða svigrúm hafa sveitarfélögin til útfærslu í sínum reglum?

Sveitarfélög ákveða fjárhæðir og hlutföll sem gilda við meðferð umsókna, m.a. um hámark stuðnings. Í leiðbeinandi reglum kemur fram að hámarkið er bundið fjárhæðinni 82 þús. kr. og hlutfallinu 75%. Í sínum reglum geta sveitarfélög gengið út frá öðru hámarki - hærra eða lægra eftir atvikum.  

Hvernig virkar það að sérstakur stuðningur er ákveðinn sem hlutfall af húsnæðisbótum?

Sérstakur stuðningur kemur alltaf til viðbótar þeim húsnæðisbótum sem umsækjandi fær frá ríkinu. Þessa viðbót má reikna sem hlutfall af þeirri krónutölu húsnæðisbóta sem er niðurstaðan úr umsóknarferli viðkomandi umsækjanda hjá Vinnumálastofnun.

Má sveitarfélag vera með önnur tekju- og eignaviðmið en þau sem fram koma í lögum um húsnæðisbætur?

Já, þessi viðmið ákveður hvert sveitarfélag fyrir sig, með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins. Gagnvart tekjum getur sveitarfélag verið með neðri mörk og efri mörk og ákveðið að húsnæðisstuðningur skv. reglum þess skerðist hlutfallslega á bilinu þar á milli.

Geta þá tekjur umsækjanda á sama bili skert bæði húsnæðisbætur og húsnæðisstuðning sveitarfélags?

Já, ef sveitarfélag ákveður lægri tekjuviðmið en þau sem fram koma í lögum um húsnæðisbætur, getur komið til þess að tekjur á ákveðnu bili skerði bæði húsnæðisbætur og húsnæðisstuðning.

Spurt og svarað um ráðgjöf, húsnæðisáætlanir og leiðbeiningarskyldu:

Sveitarfélag á að veita „almennar upplýsingar“ um húsnæðismál - hvað er átt við með því?

Þessi upplýsingaskylda tengist einkum húsnæðisáætlunum, sem sveitarfélögum er ætlað að gera og framkvæma. Miðað er við að sveitarfélag birti árlega birta skýrslu um framkvæmd húsnæðisáætlunar þess, þar sem rakin er framvinda þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til, m.a. með skipulagsáætlunum, úrlausn á biðlistum eftir húsnæði og þarfagreiningum. Umfjöllunin getur birst sem hluti af ársskýrslu sveitarfélagsins.

Þarf sveitarfélag að búa til sérstaka húsnæðisáætlun um húsnæði fyrir fatlað fólk?

Nei, gert er ráð fyrir að húsnæðisáætlun sveitarfélags taki til allra hópa, þar sem fyrir liggur að þörf er á aðgerðum. Áætlun byggist einnig á forgangsröðun. Sé það þannig niðurstaða sveitarstjórnar að á fyrsta tímabili húsnæðisáætlunar skuli úrræði byggð til þess að mæta þörf fatlaðs fólks fyrir húsnæði, þarf húsnæðisáætlun ekki að taka til úrræða fyrir aðra hópa. Rétt er hins vegar að setja þarfagreiningar gagnvart öðrum hópum í farveg á gildistíma áætlunar, þannig að uppfærðar upplýsingar liggi fyrir við endurskoðun áætlunar.

Hvernig á að bregðast við ef sveitarfélagi berst umsókn um stofnframlag, en reglur þar um hafa ekki verið settar?

Sveitarfélagi er heimilt en ekki skylt að veita lögaðila stofnframlag. Sveitarstjórn tekur afstöðu til þess við stefnumörkun á sínum vettvangi hvort virkja eigi heimild til þess að veita lögaðilum stofnframlög. Sé það niðurstaða sveitarstjórnar að virkja heimildina þarf hún að setja reglur þar að lútandi. Rétt er að svara viðkomandi lögaðila með vísan til þess hver staða málsins er á vettvangi sveitarstjórnar. Sé unnið að gerð reglna er eðlilegt að fram komi hvenær vænta megi þess að þeirri vinnu ljúki og reglur fái birtingu. Umsókn hvíli á meðan. Ef hins vegar afstaða sveitarstjórnar er sú að veita ekki lögaðilum stofnframlög þarf að vísa umsókninni frá með þeim rökstuðningi.

Spurt og svarað um stofnframlög:

Hvað er „íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga“?

Leiguíbúðir sem eru byggðar eða keyptar með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar til úthlutunar til þeirra hópa sem sveitarfélögum ber sérstök lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðismálum.

Gagnvart hvaða hópum bera sveitarfélögin sérstaka lagaskyldu?

Þessir hópar eru að meginstefnu fjórir talsins: (1) Skjólstæðingar félagsþjónustunnar (2) Fatlað fólk (3) Aldraðir (4) Fjölskyldur ungmenna 16 - 18 ára sem stunda nám fjarri lögheimili.

Hafa sveitarfélögin ekki lagaskyldur gagnvart tekjulágum hópum?

Jú, sveitarfélögum ber að liðsinna þeim sem teljast tekjulágir enda leiði greining á stöðu þess hóps í ljós að hann eigi örðugt með að sjá sér fyrir húsnæði. Sveitarfélög geta valið að veita það liðsinni í gegnum samninga við húsnæðissjálfseignarstofnanir á borð við Almenna íbúðafélagið hses. Ef greining sveitarfélags leiðir í ljós að fleiri, ólíkir hópar hafi verulega þörf fyrir húsnæðisstuðning, er eðlilegt og réttmætt að sveitarfélagið forgangsraði þeim stuðningi sem svigrúm er til þess að veita. Almennt myndi sú forgangsröðun miða að þeim hópum sem sveitarfélögin bera sérstaka lagaskyldu gagnvart. 

Hvað stendur skammstöfunin hses. fyrir?

Heitið „húsnæðissjálfseignarstofnun“ er skammstafað hses.

Ef sveitarfélag semur við hses. um uppbyggingu teljast þá allar þær leiguíbúðir til „íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga“?

Nei, til íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga teljast einungis þær leiguíbúðir sem sveitarfélagið úthlutar sjálft til þeirra fjögurra hópa sem það ber sérstaka lagaskyldu gagnvart. Samningar sveitarfélaga við hses. geta m.a. falið í sér að sveitarfélög áskilji sér tiltekið hlutfall (t.d. 20%) til úthlutunar sem bráðahúsnæði á sínum vegum.

Er skylt að veita stofnframlag til lögaðila sem sækir um það til sveitarfélags?

Nei, sveitarfélagi er ekki skylt að lögum að veita stofnframlög skv. umsóknum. Sveitarfélag getur í fyrsta lagi ákveðið að slíkur stuðningur standi lögaðilum ekki til boða vegna byggingar eða kaupa innan marka þess. Í öðru lagi þarf umsókn að standast þau skilyrði sem sveitarfélag setur í reglum sínum um stofnframlög.

Ríkið veitir 4% viðbótarstofnframlag vegna íbúða fyrir öryrkja o.fl. hópa. Þarf sveitarfélag jafnframt að bæta 4% við sitt 12% stofnframlag vegna slíkra umsókna?

Við afgreiðslu laganna á Alþingi var gengið út frá því að sveitarfélagi sé heimilt - en ekki skylt - að mæta 4% viðbótarframlagi ríkis með allt að 4% viðbót af sinni hálfu.

„Landsbyggðarákvæðin“ í lögunum - hvað er átt við með því?

Að heimilt sé að veita viðbótarstofnframlög (ríkið með 6% og hlutaðeigandi sveitarfélag með 4%) vegna byggingar íbúða á tilteknum landsvæðum. Þessi svæði eru skilgreind út frá því að bygging íbúða hafi verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á því að fá fjármögnun á almennum lánamarkaði. Þar sem þessar aðstæður valda skorti á leiguhúsnæði er fyrir hendi markaðsbrestur. Viðbótarstofnframlögum er ætlað að bæta úr þeim bresti.

Þarf hlutaðeigandi sveitarfélag alltaf að mæta 6% viðbótarframlagi ríkisins?

„Landsbyggðarákvæði“ fela í sér tvær sjálfstæðar undantekningar sem gert er ráð fyrir að verði aðeins nýttar þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Ríki og sveitarfélagi er þannig hvoru um sig heimilt að veita viðbótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Sá munur er á heimildunum að ekki má krefjast endurgreiðslu á viðbótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríkinu.

Liggur fyrir á hvaða svæðum „landsbyggðarákvæðin“ gilda?

Lögin gera ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti óskað umsagnar Byggðastofnunar þegar metið er hvar þessar tilteknu aðstæður valda skorti á leiguhúsnæði. Umsögn Byggðastofnunar liggur ekki fyrir. (16.11.2016)

Hvað þarf nýframkvæmd að vera komin langt til þess að hægt sé að veita stofnframlag vegna hennar?

Viðkomandi sveitarfélag þarf að vera búið að samþykkja byggingaráformin. Hafa má hliðsjón af kafla 2.4 í byggingarreglugerð varðandi samþykki byggingaráforma. (16.11.2016)

Sveitarstjórn hefur ákveðið að sveitarfélagið standi sjálft að uppbyggingu á grundvelli laga um almennar íbúðir. Þarf þá að setja reglur um veitingu stofnframlaga?

Krafan um setningu formlegra reglna af hálfu sveitarstjórnar á fyrst og fremst við ef sveitarfélag ákveður að uppbygging leiguíbúða með stofnframlögum fari fram í samstarfi við hses. eða aðra sjálfstæða lögaðila.

Hvernig á sveitarfélag að bregðast við ef Íbúðalánasjóður hafnar veitingu stofnframlags ríkisins?

Ákvörðun sveitarfélags um veitingu stofnframlags fellur niður, hafni Íbúðalánasjóður veitingu stofnframlags ríkisins. Sveitarfélagi er rétt að tilkynna umsækjanda um að fyrri ákvörðun sé niður fallin en þarf hins vegar ekki að taka málið efnislega upp að nýju. (1. mgr. 14. gr.)

Spurt og svarað um úthlutun á húsnæði

Hvað eru almennar íbúðir?

Leiguíbúðir sem eru byggðar eða keyptar með stofnframlögum ríkis og þess sveitarfélags þar sem íbúðin er staðsett. Þessar íbúðir eru einnig nefndar leiguheimili.

Telst „íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga“ til almennra íbúða?

Ákvæði um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga eru í lögum um almennar íbúðir, og flestar meginreglur þeirra laga gilda jafnt um þær íbúðir sem hses. og aðrir lögaðilar eiga og reka og þær íbúðir sem teljast á vegum sveitarfélaga. Ákveðnar sérreglur gilda þó um húsnæði á vegum sveitarfélaga, þ.e.: (1) um tekju- og eignamörk leigjenda, (2) ákvörðun leigufjárhæðar, (3) úthlutun íbúða og (4) um reikningslega stöðu stofnframlaga.

Eru almennar íbúðir það sama og áður gekk undir heitinu „félagslegt leiguhúsnæði“?

Nei, lagagrundvöllurinn hefur breyst, m.a. hvað það varðar að stærri hópur en áður getur sótt um íbúðir sem eru byggðar eða keyptar með opinberum stuðningi (þ.e. stofnframlögum). Hvað tekju- og eignaviðmið varðar er nú gengið út frá því að fólk í tveimur fyrstu tekjufimmtungum eigi aðgang að þessu nýja fyrirkomulagi. Heimilt er þó að setja reglur um forgangsrétt, svo sem vegna fjölskyldustærðar, fjárhagsstöðu eða félagslegra aðstæðna umsækjenda.

Gilda reglugerðir um almennar íbúðir einnig um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga?

Reglugerðir settar af félags- og húsnæðismálaráðherra um tekju- og eignamörk, ákvörðun leigufjárhæðar og úthlutun íbúða gilda ekki um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga. Reglugerð um stofnframlög gildir hins vegar um sveitarfélögin. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra gefi út leiðbeiningar til sveitarfélaga um hvernig leigufjárhæð skuli ákvörðuð í almennum íbúðum sem nýttar eru sem íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga*.
* Þessar leiðbeiningar eru í vinnslu (03.01.2017)

Þarf sveitarfélag að setja sér reglur um úthlutun íbúðarhúsnæðis á sínum vegum?

Þegar sveitarfélag úthlutar íbúðarhúsnæði felur það almennt í sér opinbera ráðstöfun á takmörkuðum gæðum. Fái umsækjandi synjun telst sú ákvörðun íþyngjandi fyrir hann. Að öllu jöfnu er gerð krafa um að slíkar ákvarðanir grundvallist á reglum sem eru settar og birtar með lögformlegum hætti. Séu reglur ekki fyrir hendi er viðbúið að ákvörðun teljist ógildanleg ef á hana reynir fyrir úrskurðarnefnd eða dómstólum.

Spurt og svarað um Varasjóð húsnæðismála

Veitir varasjóðurinn rekstrarframlög?

Frá árinu 2008 hefur sjóðurinn ekki haft bolmagn til þess að veita sveitarfélögum rekstrarframlög vegna félagslegra íbúða. Slík framlög námu alls 543,6 m.kr. á tímabilinu frá 2002 til og með ársins 2008. Miðað við verðlag í desember 2015 jafngilda þessi framlög  920,4 m.kr.

Veitir varasjóðurinn söluframlög?

Greining á eiginfjárstöðu sjóðsins árið 2016 leiddi í ljós að eitthvert svigrúm væri til þess að veita sveitarfélögum framlög vegna sölu félagslegra íbúða sveitarfélaga á almennum markaði. Reiknað er með að ráðstafa að hámarki 20 m.kr. vegna ársins 2016 og 20 m.kr. á árinu 2017, skv. reglugerð nr. 656/2002 og vinnureglum sjóðsins.  Umsóknir um söluframlög eru til meðferðar hjá sjóðnum, en jafnframt er hlutverk og fjármögnun sjóðsins til umræðu í tengslum við áætlanir um framtíðarskipan húsnæðismála.  

Spurt og svarað um húsnæðisstuðning við 15-17 ára börn á heimavistum

Þurfa sveitarfélög að veita húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára nemenda á heimavistum?

Já, frá og með 1. janúar 2017 verður sveitarfélögum skylt að veita húsnæðisstuðning vegna 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili. 

Hver sækir um þennan húsnæðisstuðning?

Foreldrar eða forsjáraðilar 15-17 ára barns eru bæði umsækjendur og viðtakendur þessara greiðslna frá sveitarfélögum. 

Gilda tekju- og eignarmörk um þennan stuðning?

Nei, stuðningurinn skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna.

Sveitarfélagið hefur veitt 50% stuðning fram að þessu, þarf að hækka hann í 75%?

Samkvæmt lagaákvæðinu sem gildir um þennan stuðning skal hann vera „ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar“. Sveitarfélög hafa samkvæmt þessu svigrúm til þess að ákveða hvort stuðningurinn er 75%, 50% eða annað hlutfall af þeirri leigu sem innheimt er vegna herbergis á heimavist eða námsgörðum. 

Þetta er ný lagaskylda - var hún kostnaðarmetin?

Ákvæði um húsnæðisstuðning við 15-17 ára börn kom inn þegar velferðarnefnd þingsins fjallaði um frumvarp til laga um húsnæðisbætur, sbr. nefndarálit dags. 1. júní 2016. Þessi aukna lagaskylda var því ekki inni í frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram (og kostnaðarmetið). Um málið var hins vegar samið milli ríkis og sveitarfélaga í maí sl. og þar var búinn til farvegur fyrir vöktun og kostnaðarmat í gegnum samráðsnefnd um húsnæðismál. Af hálfu nefndarinnar er lögð áhersla á að sveitarfélög haldi utan um kostnað sem til fellur vegna nýmæla, bæði í beinum útgjöldum og í aukinni vinnu í stjórnsýslu.

Hvernig á að fjármagna útgjöld vegna þessarar nýju lagaskyldu?

Kerfisbreytingin um áramótin 2016/17 býr til fjárhagslegt svigrúm sem sveitarfélögum er ætlað að nýta til þess að fjármagna m.a. þennan húsnæðisstuðning vegna 15-17 barna á heimavistum. 

Fá sveitarfélög jöfnunarframlög vegna útgjalda til þessa nýja verkefnis, ef fjárhagslegt svigrúm nægir ekki til þess að standa undir nýjum lagaskyldum?

Á þessu stigi eru ekki uppi neinar ráðagerðir um að jöfnunarsjóður veiti sérstök framlög á árinu 2017 í því skyni að jafna aðstöðu sveitarfélaga gagnvart þessum nýju útgjöldum.