Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga

Husin-i-baenum-029Stofnframlög eru nýtt form á opinberum húsnæðisstuðningi, sem hafist var handa við að innleiða haustið 2016. Stofnframlög eru veitt annars vegar af hálfu ríkisins og hins vegar af hálfu sveitarfélaga, á grundvelli laga um almennar íbúðir. Markmið með veitingu stofnframlaga er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu. Er stofnframlögum ætlað að stuðla að því „að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna“ eins og segir í 1. gr. laganna.

Stofnframlög eru veitt á grundvelli umsókna. Forsenda fyrir veitingu stofnframlags sveitarfélags er að umsækjanda verði jafnframt veitt stofnframlag ríkisins.

Stofnframlag sveitarfélags er 12% og er innt af hendi á eftirfarandi formi:

  • Bein fjárveiting úr sveitarsjóði eða sjóði í B-hluta
  • Framsal lóðarréttinda, þ.m.t. vegna byggingarréttar
  • Aflétting lögbundinna gjalda, svo sem gatnagerðargjalds

Mögulegt er að blanda saman formum til þess að stofnframlag nái 12% af stofnvirði íbúðarhúsnæðis. Framsal lóðarréttinda fer fram á markaðsvirði og ef það reiknast hærra en 12% eignast sveitarfélag tilkall til mismunarins hjá viðtakanda stofnframlags.

Viðbótarframlög

Sveitarfélagi er lögum samkvæmt heimilt að veita 4% viðbótarframlag á tilteknum svæðum þar sem bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á því að fá fjármögnun á almennum lánamarkaði. 

Sveitarfélagi er ennfremur heimilt að veita allt að 4% viðbótarframlag til þess að mæta samsvarandi 4% viðbótarframlagi ríkisins vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er tilteknum hópi, þar á meðal fötluðu fólki. Fjallað er um þessi 4% viðbótarframlög ríkisins í 2. mgr. 11. gr. laga um almennar íbúðir og í 8. gr. reglugerðar um stofnframlög.