Úthlutun á húsnæði

Stykkisholmur1Velji sveitarfélag að semja við húsnæðissjálfseignarstofnun (hses.) eða annan lögaðila um að eiga og reka íbúðir sem eru byggðar eða keyptar með stofnframlögum, gilda ákvæði 19. gr. laga um almennar íbúðir um úthlutun þeirra. Þessum íbúðum skal einungis úthlutað til leigjenda sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laganna. Við úthlutun almennra íbúða skal að jafnaði farið eftir því hversu lengi umsækjandi hefur verið á biðlista hjá viðkomandi aðila eftir íbúð. Þó er eiganda almennra íbúða heimilt að setja reglur um forgangsrétt til leigu almennra íbúða, svo sem vegna fjölskyldustærðar, fjárhagsstöðu eða félagslegra aðstæðna umsækjenda. Leigjendur sem hafa fengið íbúð úthlutað en vegna breyttra aðstæðna hafa þörf fyrir annars konar íbúð skulu að jafnaði eiga forgang við úthlutun slíkrar íbúðar hjá sama eiganda almennra íbúða. Við úthlutun almennra íbúða skal stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félagslegri blöndun.

Eigandi almennra íbúða (hses. eða annar lögaðili) annast að meginstefnu úthlutun sinna íbúða. Honum er þó heimilt að semja við það sveitarfélag sem íbúðirnar eru í um að annast úthlutunina. Einnig getur samist um það milli sveitarfélags og hses. eða annars lögaðila að tiltekið hlutfall íbúða sem lögaðilinn reisir teljist til húsnæðis á vegum sveitarfélags. Þær íbúðir sér sveitarfélagið um að úthluta enda er það annað tveggja einkenna „íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga“ að hlutaðeigandi sveitarfélag sér um að úthluta þeim íbúðum. Hitt einkennið er þessum íbúðum er úthlutað til þeirra sem sveitarfélaginu ber sérstök lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðismálum. Þar er að meginstefnu til um fjóra hópa að ræða:

  1. Skjólstæðingar félagsþjónustunnar
  2. Fatlað fólk
  3. Aldraðir
  4. Fjölskyldur ungmenna 16 - 18 ára sem stunda nám fjarri lögheimili.