Varasjóður húsnæðismála

Hlutverk Varasjóðs húsnæðismála er meðal annars:

  • að veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma,
  • að veita framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði og
  • að veita ráðgjöf og leiðbeininga til sveitarfélaga sem vilja breyta um rekstrarform félagslegra leiguíbúða eða hagræða í rekstri þeirra.

Ofangreind verkefni varasjóðsins snúa sérstaklega að félagslegum leiguíbúðum á tilteknum landssvæðum. Þessi svæði eiga sammerkt að þar hefur ekkert verið byggt af nýjum íbúðum vegna misgengis á milli byggingarkostnaðar og fasteignaverðs auk þess sem þar eru yfirleitt sérstök vandkvæði á því að fá lánsfjármögnun. Til framtíðar er viðbótarstofnframlögum ríkis og sveitarfélaga skv. 12. og 14. gr. laga um almennar íbúðir ætlað að bæta úr þessum markaðsbresti á umræddum svæðum gagnvart nýjum íbúðum. Varasjóði húsnæðismála er hins vegar ætlað að mæta vanda vegna eldri félagslegra leiguíbúða sem teljast yfirveðsettar vegna áhvílandi lána frá Íbúðalánasjóði.

Fjallað er um hlutverk og fjármögnun varasjóðsins í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 þar sem segir (3.3.35):  Sambandið skal stuðla að því að Varasjóður húsnæðismála verði áfram bakhjarl sveitarfélaga á svæðum þar sem brestur er á húsnæðismarkaði. Teknar verði upp viðræður við ríkisvaldið um hlutverk og fjármögnun sjóðsins í tengslum við áætlanir um framtíðarskipan húsnæðismála.

Varasjóðurinn hefur einnig tekið að sér að vinna kannanir um ýmsa þætti sem snúa að leiguíbúðum í eigu sveitarfélaganna, s.s. uppbyggingu, framboð, eftirspurn o.fl. Sjá frétt á vef velferðarráðuneytisins um könnun vegna ársins 2015.

Nánari upplýsingar um starfsemi Varasjóðs húsnæðismála má nálgast á vef velferðarráðuneytisins.

Spurt og svarað um Varasjóð húsnæðismála