Heildarsamkomulag um yfirfærsluna 23. nóvember 2010

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga
um tilfærslu þjónustu við fatlaða

Samkomulagið á pdf

1. gr.

Tilfærsla þjónustu

 

Þjónusta sem ríkið veitir fötluðum samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaða færist til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011. Sveitarfélög og þjónustusvæði á vegum þeirra taka þá við ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hefur verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem henni tengjast.

     Þeir þjónustuþættir sem sveitarfélög taka við eru:

a.       sambýli,

b.      áfangastaðir,

c.       frekari liðveisla við íbúa í þjónustu- og íbúðakjörnum og í sjálfstæðri búsetu,

d.      hæfingarstöðvar og dagvistarstofnanir

e.       verndaðir vinnustaðir og atvinna með stuðningi,

f.       heimili fyrir börn,

g.      skammtímavistanir,

h.      stuðningsfjölskyldur,

i.        ráðgjöf og önnur stuðningsþjónusta við fatlaða og fjölskyldur þeirra.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. munu Hringsjá - náms og starfsendurhæfing, Tölvumiðstöð fatlaðra, Múlalundur, Blindravinnustofan og Vinnustaðir ÖBÍ áfram vera á ábyrgð félags- og tryggingamálaráðuneytis og stofnana þess.

     Samningsaðilar munu vinna að framtíðarverkaskiptingu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar á sviði atvinnumála fatlaðra, sbr. lög nr. 55/2006 um vinnumarkaðaðgerðir.

 

2. gr.

Markmið

Markmið tilfærslu þjónustu við fatlaða eru að:

 1. bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum,
 2. stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
 3. tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga,
 4. tryggja góða nýtingu fjármuna,
 5. styrkja sveitarstjórnarstigið,
 6. einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

    

3. gr.

Lagabreytingar

Eftirfarandi breytingar á lögum eru forsenda tilfærslu á þjónustu við fatlaðra til sveitarfélaga:

 1. Breytingar á lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaða, sem felur í sér að framkvæmd þjónustunnar færist frá ríki til sveitarfélaga. Drög að lagafrumvarpi eru í viðauka 1.
 2. Breytingar á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
 3. Breytingar á lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
 4. Breytingar á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
 5. Lagabreytingar vegna tilfærslu fasteigna.

Stefnt er að endurskoðun á lagaramma málaflokksins í samræmi við ákvæði viðauka 2.

 

4. gr.

Þjónustusvæði

Þjónustusvæði um rekstur þjónustu við fatlaða skulu að lágmarki hafa átta þúsund íbúa og skulu þau mótast með samkomulagi og samstarfssamningi sveitarfélaga.

Sveitarfélög sem mynda þjónustusvæði bera sameiginlega ábyrgð á veitingu og fjármögnun þjónustu innan þess.

Í samstarfssamningi um myndun þjónustusvæðis skal kveða á um form og skipulag þjónustu. Meðal annars skulu vera ákvæði um stjórnskipulag þjónustusvæðisins, rekstraraðila þjónustu, sem eru eftir atvikum sveitarfélög, byggðasamlög eða sjálfstæðir aðilar, gerð og inntak þjónustusamninga og fjármögnun þjónustunnar innan svæðisins.

Félags- og tryggingamálaráðherra getur tekið ákvarðanir um mörk þjónustusvæða náist ekki samkomulag milli sveitarfélaga. Í þessu sambandi er ráðherra í undantekningatilfellum heimilt að veita undanþágu frá viðmiði um átta þúsund íbúa á grundvelli landfræðilegra aðstæðna. Til að hljóta undanþágu verður sveitarfélag að sýna fram að það hafi faglega og fjárhagslega getu til að veita alhliða þjónustu og að óraunhæft sé fyrir það að vera hluti af þjónustusvæði vegna fjarlægða eða erfiðra samgangna.

Leiðbeiningar um myndun þjónustusvæða er að finna í viðauka 3.

 

5. gr.

Fjárhagsrammi

Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða mun útsvarshlutfall sveitarfélaga hækka um 1,2% (prósentustig) gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Að auki verða veitt framlög á fjárlögum vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingakostnaðar.

Fjárhæðir og nánari útfærsla á fjárhagsramma tilfærslunnar koma fram í samkomulaginu, dagsettu 6. júlí 2010, í viðauka 4. Þó skulu árleg framlög samkvæmt 5. lið samkomulagins (framlög vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins), breytast úr 780 m.kr. í 856 m.kr. sbr. meðfylgjandi sundurliðun. Einnig skal fjárhæð breytingakostnaðar árið 2012 hækka úr 120 m.kr. í 395 m.kr. og koma til greiðslu í janúar það ár og fjárhæð breytingakostnaðar árið 2013 hækka úr 40 m.kr. í 215 m.kr. og koma til greiðslu í janúar það ár.

Framkvæmt verður tryggingafræðilegt mat á árlegum mismuni áfallinna skuldbindinga og greiddra iðgjalda, vegna starfsmanna sem aðild eiga að B-deild LSR. Skal fjárhæð sem nemur fyrirsjáanlegum árlegum mismuni bætast við árlegt framlag vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, til að vega á móti skuldbindingum sem sveitarfélög taka við skv. 2. mgr. 9. gr.

Framlög ríkisins til sveitarfélaga vegna lengdrar viðveru grunn- og framhaldsskólanema eru hluti fjárhagsramma samningsins og munu sveitarfélög sinna þessu verkefni með sambærilegum hætti og á undanförnum árum.

Lagt verður fram frumvarp um breytingar á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem lagðar verða til breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga í samræmi við samkomulagið. Drög að lagafrumvarpi eru í viðauka 5.

 

Framlög vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins skv. samkomulagi 6. júlí 780
Múlalundur   -24
Blindravinnustofan   -21
Vinnustaðir ÖBÍ   -19
Svæðisráð og trúnaðarmenn   -12
Tillaga um viðbótarverkefni og launabreytingar í fjárlögum 2011   152
Framlög vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins eftir leiðréttingar 856
Liðir til lækkunar samtals   -77
Liðir til hækkunar samtals   152

 

6. gr.

Jöfnunaraðgerðir

0,95% af útsvarsstofni sveitarfélaganna rennur til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Framlög á fjárlögum sbr. 5. gr. skulu einnig renna til sérdeildarinnar.

Sett verða ákvæði í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um úthlutun framlaga úr sérdeildinni, sem skal tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og mismunandi þjónustuþarfa þeirra. Heimilt er að ákveða sérstakt aðlögunartímabil þar sem framlög byggja að hluta eða öllu leyti á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010. Nánari lýsingu á jöfnunarkerfinu er að finna í viðauka 6.

Sett verða í reglugerð, samkvæmt tillögum stýrihóps, sbr. 12. gr., sérstök ákvæði um ráðstöfun framlaga vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingakostnaðar. Framlög vegna breytingakostnaðar skulu meðal annars greiða kostnað vegna stýrihóps, sbr. 12. gr., samræmds mats á þjónustuþörf á landsvísu og kostnað Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna samhæfingar tengdri tilfærslunni.

Heimilt er að ákveða í reglugerð að sveitarfélög geti í sérstökum tilfellum fengið framlög vegna stofnkostnaðar fasteigna, enda hafi viðkomandi sveitarfélög sýnt fram á að þau beri óeðlilega háan kostnað vegna fasteigna.

 

7. gr.

Fasteignir

Fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða, sbr. viðauka 13, renna til sérstaks fasteignasjóðs í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hið sama gildir um önnur réttindi og skyldur ríkisins tengd fasteignum málaflokksins. Við stofnsetningu fasteignasjóðsins skal Framkvæmdasjóður fatlaðra lagður niður og tekur fasteignasjóðurinn yfir eignir, réttindi og skyldur sjóðsins.

Starfsemi fasteignasjóðsins skal miða að því að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga vegna fasteignamála þjónustu við fatlaða. Tekjur fasteignasjóðsins umfram gjöld renna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skulu nýttar til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, sbr. 6. gr.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setur, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, reglugerð um starfsemi fasteignasjóðsins. Í reglugerðinni skal kveðið á um rekstrarform og stjórnun, leigu og sölu fasteigna og heimildir til að fela öðrum aðilum umsýslu og daglegan rekstur fasteigna.

Einstakar fasteignir skulu leigðar þeim sveitarfélögum sem bera ábyrgð á þeirri þjónustu sem veitt er í þeim. Sveitarfélög skulu jafnframt eiga kost á að kaupa viðkomandi fasteignir. Þá geta sveitarfélög tilnefnt rekstraraðila þjónustu, rekstraraðila félagslegs húsnæðis eða íbúa sem kaupendur viðkomandi fasteigna.

Miðað skal við að árlegt leiguverð fasteigna sem sveitarfélög greiða verði 8,5% af fasteignamati. Á gildistíma samningsins er þó heimilt að ákveða lægra leiguverð uns jöfnunarfyrirkomulag  sbr. 2. mgr. 6. gr. er að fullu komið til framkvæmda að mati stýrihóps skv. 12. gr.

Við sölu fasteigna til sveitarfélaga eða aðila sem þau tilnefna er kaupanda heimilt að greiða kaupverð með skuldabréfi með veði í viðkomandi fasteign. Kjör og skilmálar skuldabréfa skulu vera sambærileg við lán Íbúðalánasjóðs til félagslegra leiguíbúða en þó skulu vextir vera 2%.

Fasteignir sem sveitarfélög telja ekki þörf fyrir vegna þjónustu við fatlaða skulu seldar á frjálsum markaði og andvirði þeirra ráðstafað til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Fasteignir sem ekki hafa verið seldar fyrir árslok 2014 skulu seldar á frjálsum markaði og andvirði þeirra ráðstafað til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

 

8. gr.

Starfsmenn

Starfsmenn ríkisins sem starfa í þjónustueiningum í málaflokki fatlaðra, sbr. a-g liði 2 mgr. 1. gr., verða við tilfærsluna starfsmenn sveitarfélaga. Um tilfærslu þessara starfsmanna fer samkvæmt lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Störf starfsmanna í yfirstjórn svæðisskrifstofa málefna fatlaðra verða lögð niður. Sveitarfélög munu leitast við að bjóða starfsmönnum skrifstofanna í umsýslu og ráðgjöf störf.

Aðilar samkomulagsins munu hafa með sér nána samvinnu og upplýsingamiðlun um þróun starfsmannamála og launakostnaðar hjá sveitarfélögum vegna tilfærslunnar, sbr. viðauka 7

 

9. gr.

Lífeyrissjóðsmál

Starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sbr. lög nr.1/1997 munu fá aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Þó geta starfsmenn sem þess óska haldið aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga munu eiga aðild að þeim lífeyrissjóði áfram í samræmi við lög nr. 2/1997 um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Starfsmenn sem aðild eiga að B-deild LSR munu halda þeirri aðild. Sveitarfélög taka á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum og til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda sbr. 23. gr. laga nr. 1/1997 munu launagreiðendur greiða sérstakt iðgjald til B-deildar LSR til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum.

Fjármálaráðherra mun leggja fram frumvarp til breytinga lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í samræmi við ákvæði þessarar greinar. Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru í viðauka 7.

 

10. gr.

Réttur til þjónustu og þróun hennar

Réttur fatlaðra til þjónustu er tryggður með margvíslegum hætti eins og fjallað er um í viðauka 7 og er meðal annars gert ráð fyrir þróun þjónustustaðla og eflingu innra og ytra eftirlits með faglegri starfsemi og gæðum.

Efnt verður til sérstaks samstarfsverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr, viðauka 8 og skal reynslan af því verkefni nýtt við endurskoðun lagarammans, sbr. 3. gr.

Gerðar verða tilteknar breytingar á reglugerð um búsetu fatlaðra.

Haustið 2010 verður gerð ítarleg könnun á fjölda og þjónustuþörf fatlaðra. Í því sambandi verður leitað eftir upplýsingum um biðlista sem nýttar verða til að meta kostnað vegna hans.

Framkvæmt verður samræmt mat á þörf fyrir þjónustu sem meðal annars verður nýtt í þágu jöfnunaraðgerða, sbr. 6. gr. Haft verður samráð við hagsmunasamtök fatlaðra og Samband Íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd matsins.

 

11. gr.

Faglegt og fjárhagslegt mat

Árið 2014 skal fara fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar og skal undirbúningur matsins hefjast árið 2013. Mat á faglegum árangri skal byggja á markmiðum tilfærslunnar sbr. 2. gr.

Ef í ljós kemur veruleg röskun á forsendum tilfærslunnar skulu teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um nauðsynlega leiðréttingu. Við mat á fjárhagslegum þáttum skal meðal annars horft til forsendna og aðferða við kostnaðarmat, sbr. viðauka 10. Sveitarfélög skulu halda kostnaði við þjónustu við fatlaða aðgreindum, þannig að unnt verði að leggja mat á kostnaðarþróun þjónustunnar.

Miðað er við að mat á fjárhagslegum forsendum verði framkvæmt með þeim hætti að það nýtist til ákvörðunar um útsvarsstofn árið 2014, sbr. ákvæði 13. liðar samkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða.

Í viðauka 11 koma fram þau viðmið sem lögð skulu til grundvallar fjárhagslegu endurmati.

      

12. gr.

Stýrihópur

Stýrihópur ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðra hefur umsjón með framkvæmd tilfærslunnar. Í því sambandi skal stýrihópurinn meðal annars:

 1. Vinna áætlanir og annast eftirfylgni þeirra.
 2. Veita sveitarfélögum aðstoð.
 3. Fjalla um vafamál og ágreining sem upp kann að koma og gera tillögur að úrlausn.
 4. Vinna að útfærslu jöfnunaraðgerða og fasteignamála í samstarfi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
 5. Hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðra á landsvísu.
 6. Vinna að bættu eftirliti með þjónustu við fatlaða og umbótum á réttindagæslu fatlaðra.
 7. Vinna greiningu og tillögur í því skyni að auka gagnsæi húsnæðiskostnaðar og tryggja jafnræði í húsaleigugreiðslum fatlaðra og leggja fram áfangaskipta áætlun um framkvæmd.
 8. Vinna að framtíðarfyrirkomulagi atvinnumála fatlaðra.
 9. Leggja reglubundið mat á framkvæmd og árangur tilfærslunnar.
 10. Gera tillögur um breytingar á tilhögun tilfærslunnar eftir því sem þörf er á.
 11. Hafa umsjón með mati sbr. 11. gr.

Stýrihópurinn er skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra og skal samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tilnefna einn fulltrúa, fjármálaráðherra einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga þrjá fulltrúa og hagsmunasamtök fatlaðra tvo fulltrúa. Formaður skal skipaður án tilnefningar.

Kostnaður vegna starfa stýrihópsins, greiningar og ráðgjafar á vegum hans, sem og kostnaður við mat sbr. 11. gr. greiðist af framlögum sem renna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna breytingakostnaðar.

 

 

Reykjavík 23. nóvember 2010,

 

Fyrir hönd ríkisins,

 

Fyrir hönd sveitarfélaga,

Guðbjartur Hannesson

félags- og tryggingamálaráðherra

 

 

Halldór Halldórsson

formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Steingrímur J. Sigfússon

fjármálaráðherra

 

 

Karl Björnsson

framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga

Ögmundur Jónasson

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

   
 Viðauki 1:
Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um málefni fatlaðra
 Viðauki 2:
Þróun lagaramma málaflokks fatlaðra
 Viðauki 3:
Undirbúningur sveitarfélaga og myndun þjónustusvæða
 Viðauki 4:
Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma
 Viðauki 5:
Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga
 Viðauki 6:
Jöfnun vegna þjónustu sveitarfélaga við fatlaða
  Viðauki 7:
 Starfsmannamál
 Viðauki 8:
Réttur fatlaðra til þjónustu eftir tilfærslu hennar til sveitarfélaga
 Viðauki 9:
Samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð
 Viðauki 10:
Kostnaðarmat
 Viðauki 11:
Fjárhagsleg óvissuatriði við kostnaðarmat