Samningar við launþegasamtök

Fjarvinna

Samkomulag um fjarvinnu milli aðildarfélaga Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkuborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins, undirritað 20. október 2006.

Samkomulagið á við þegar vinna starfsmanns er skipulögð með þeim hætti að hann vinnur reglulega utan starfsstöðvar vinnuveitanda og upplýsingatækni er notuð við skipulag og/eða framkvæmd fjarvinnunnar. Sjá nánar 2. gr. samkomulagsins.

Samkomulagið tryggir starfsmönnum í fjarvinnu sömu réttindi og sambærilegum starfsmönnum í starfsstöð vinnuveitanda eru tryggð samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Í samkomulaginu kemur fram að fjarvinna getur verið hluti af upphaflegum ráðningarforsendum eða komist á síðar. Þar er áréttuð sú skylda vinnuveitanda að gefa fjarvinnustarfsmanni skriflega viðeigandi upplýsingar. Áður en fjarvinna hefst er áríðandi að skilgreint sé hvernig ábyrgð og kostnaði varðandi búnað sé háttað og að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja vernd gagna, einkanlega varðandi hugbúnað.

Athygli er vakin á því að samráðsnefnd um vinnutíma skal fjalla um framkvæmd samkomulagsins um fjarvinnu svo og útfærslu og túlkun einstakra ákvæða eftir því sem þurfa þykir. Þá fjallar hún um ágreiningsmál sem til hennar er vísað. Sjá 12. gr. í samkomulaginu.

Ráðningasamningar

Samkomulag um form ráðningarsamninga og skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör milli Launanefndar sveitarfélaga annars vegar og ASÍ, BSRB og Bandalags háskólamanna hins vegar frá 10. júní 1997.

Réttindamál

Samkomulag um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar, undirritað 24. október 2000. Samkomulag milli sömu aðila til viðbótar hinu eldra  um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna sem eru félagsmenn aðildarfélaga framangreindra samtaka, undirritað 22. desember 2004.

Meginefni fyrrnefnda samkomulagsins er þríþætt. Þar er kveðið á um veikindarétt, rétt í fæðingarorlofi og fjölskyldu- og styrktarsjóð. Meginefni síðarnefnda samkomulagsins eru slysatryggingar en það tekur eingöngu til tiltekinna kjarasamninga hjá ríki og Reykjavíkurborg en ekki hjá Launanefnd sveitarfélaga.

Ákvæði kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga og viðsemjenda hennar um rétt vegna veikinda og slysa (veikindarétt) eru í flestum tilvikum nánast samhljóða ákvæðum 2. kafla í framangreindu samkomulagi frá október 2000.

Ákvæði kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga og viðsemjenda hennar um réttarstöðu í fæðingarorlofi og fjölskyldu- og styrktarsjóð eru í flestum tilvikum nánast samhljóða ákvæðum 1. og 3. kafla í framangreindu samkomulagi frá október 2000 með þeim breytingum sem gerðar voru í samkomulaginu frá desember 2004.

Athygli er vakin á samráðsnefnd um veikindarétt sem er skipuð fulltrúum samningsaðila, sbr. gr. 2.9 í samkomulaginu frá október 2000. Nefndin fjallar um útfærslu og túlkun einstakra ákvæða um veikindarétt samkvæmt samkomulaginu og fjallar um ágreiningsmál sem til hennar er vísað.

Skipulag vinnutíma

Samningur um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands, undirritaður 23. janúar 1997.

Ákvæði kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga og viðsemjenda hennar um lágmarkshvíld, þ.e. daglegan og vikulegan hvíldartíma, byggja flest á framangreindum samningi frá 1997.

Athygli er vakin á samráðsnefnd um vinnutíma sem er skipuð fulltrúum samningsaðila, sbr. 14. gr. samningsins. Nefndin fjallar um útfærslu og túlkun einstakra ákvæða samningsins og fjallar um ágreiningsmál sem til hennar er vísað.