Jafnréttismál

Jafnréttisnefndir

Í 12. gr. jafnréttislaga er kveðið á um að sveitarstjórnir skulu skipa jafnréttisnefnd sem á að vinna samkvæmt jafnréttislögunum. Hún á að hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar fyrir sveitarstjórnina til fjögurra ára en hana á að leggja fram ekki síðar en ári eftir kosningar.

Í  lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, er sérstaklega fjallað um jafnréttismál í sveitarfélögum. Samkvæmt 12. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, að loknum sveitarstjórnarkosningum, skipa jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Skulu nefndirnar vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir í málefnum er varða jafnrétti kynjanna og fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þar með talið sértækum aðgerðum, til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Þetta eiga sveitarstjórnir að gera að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Þá skulu jafnréttisnefndir hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar til fjögurra ára, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á söðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins.

Jafnréttisáætlanir skulu lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.

Á vef Jafnréttisstofu er að finna mikið safn upplýsinga um jafnréttismál.