Evrópski jafnréttissáttmálinn

Evropusattmali-um-jafna-stodu

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í evrópskum sveitarfélögum og héruðum

Samningurinn er frá árinu 2005 og það voru Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að, sem höfðu frumkvæði að gerð hans. Þau unnu að honum í samstarfi við aðildarsamtök sín og með tilstyrk Evrópusambandsins. Um 1000 sveitarfélög og héruð í 24 landi hafa undirritað sáttmálann. Undirritun felur í sér pólitíska viljayfirlýsingu um að vinna að framgangi jafnréttismála í samræmi við sáttmálann.

Sáttmálinn spannar öll svið sveitarfélaga frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Hann býður upp á aðferðir fyrir sveitarfélög til að ná fram jafnrétti í reynd. Lögð er áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða á öllum stigum og sviðum og mati á áhrifum stefnumótunar og ákvörðunartöku á hvort kynið fyrir sig. Tryggja á jafnan aðgang kynjanna að ákvörðunartöku og þjónustu sem taki mið af þörfum bæði karla og kvenna. Mælt er fyrir um aðgerðir gegn staðalímyndum og fræðslu til starfsfólks. Taka á sérstaklega á margfaldri mismunun, sem fyrir utan kyn getur átt rót sína að rekja til kynþáttar, kynhneigðar, aldurs o.fl. Sveitarfélög skulu beita sér fyrir því að samstarfsaðilar þeirra virði jafnréttissjónarmið, svo sem í samningum um kaup á vörum og þjónustu og í samstarfssamningum við félagasamtök.

Sveitarfélög skulu innan tveggja ára hafa gert aðgerðaráætlun um hvernig þau muni framkvæma ákvæði samningsins. Þau hafa svigrúm til að forgangsraða markmiðum og setja sér tímaramma. Á landsfundi jafnréttisnefnda 2009 á Ísafirði undirrituðu formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu samstarfsyfirlýsingu um aðstoð jafnréttisstofu við sveitarfélög vegna innleiðingu sáttmálans.

Eftirfarandi sveitarfélög hafa undirritað sáttmálann:

Samstarf aðildarsveitarfélaga um innleiðingu Evrópusáttmálans

Íslensku aðildarsveitarfélögin hafa haft samstarf um innleiðingu Evrópusáttmálans og notið aðstoðar Jafnréttisstofu. Hugmyndin var sú að þau gætu með samstarfi sínu rutt brautina fyrir sveitarfélög sem undirrita sáttmálann í kjölfar þeirra. Sveitarfélagið Umeå í Norður Svíþjóð hefur verið í fararbroddi í innleiðingu sáttmálans á Evrópuvísu. Jafnréttissérfræðingur Umeå, Helene Brewer, hélt námskeið fyrir íslensku aðildarsveitarfélögin í nóvember 2011. Hér til hliðar er kynning hennar á námskeiðinu. Sveitarfélög á Umeåsvæðinu hafa haft með sér samstarf um innleiðingu sáttmálans innan landshlutasamtaka sinna. Þau hafa sett sér yfirmarkmið, sjá hér til hliðar íslenska þýðingu. Þau hafa síðan verið útfærð nánar í aðgerðaráætlunum hvers sveitarfélags. Það kom fram hjá Helene að reynsla Umeå sé sú að árangursríkast sé að reyna að samþætta jafnréttisáherslur sem mest inn í alla stefnumótun og áætlanagerð sveitarfélagsins, s.s. árlegar starfsáætlanir, og fylgja markmiðum eftir á sama hátt og markmiðum í stefnumótun og áætlunum er almennt fylgt eftir. Í samræmi við það gefur nýleg jafnréttisstefna Umeå einstökum starfseiningum ramma og leiðbeiningar um jafnréttisstarf þeirra, sjá á heimasíðu þeirra, pdf-skjal.

Hér til hliðar eru líka kynningar á því hvernig þýska borgin Heidelberg hefur unnið að innleiðingu sáttmálans og leiðbeiningar um innleiðingu frá Luxemborg.