Norrænt jafnréttisverkefni

Norrænu sveitarfélagasamböndin fengu styrk frá norrænu ráðherranefndinni til að vinna að jafnréttisverkefni meðal norrænna sveitarfélaga á árunum 2014-2015.  Verkefnið hefur tengsl við Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum sem sex íslensk sveitarfélög hafa undirritað.

Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstaður eru íslenskir þátttakendur í verkefninu.  Meðal annarra þátttökusveitarfélaga eru Århus í Danmörku, Kristiansand og Lillehammer í Noregi, Umeå, Eskilstuna og Malmö í Svíþjóð og Helsinki  og Oulu í Finnlandi. Allt eru þetta sveitarfélög sem eru í framvarðasveit í sínum löndum í jafnréttismálum.

Aðalmarkmið verkefnisins er að sveitarfélögin öðlist aukna þekkingu á því hvernig hægt er að bæta þjónustu sveitarfélaga með samþættingaraðferðarfræðinni en rauði þráðurinn í henni er að laga þjónustu að þörfum hvors kyns fyrir sig. Samþætting snýst því í raun um markvissa gæðastjórnun [1].

Haldnar verða þrjár vinnustofur þar sem sveitarfélögin bera saman bækur sínar um hvernig unnið er að jafnréttisstarfi innan þeirra, fá upplýsingar um fyrirmyndarverkefni og mynda samstarfstengsl á milli sín. Sú fyrsta var haldin í Malmö 11.-12. júní sl., í tengslum við jafnréttisráðstefnuna Nordiskt Forum2014. Þar ræddu sveitarfélögin hvaða væntingar þau hefðu áhuga til verkefnisins og hvað þau gætu haft fram að færa. Sænsku sveitarfélögin þrjú voru einnig með kynningar á sínu jafnréttisstarfi.

Önnur vinnustofan var haldin í Helsinki 6.-7. nóvember sl. Þar var farið dýpra ofan í mál sem þátttakendur höfðu sett fram óskir um. Meðal annars kynnti Reykjavíkurborg vinnu sína að kynjaðri fjárhagsáætlunargerð; Eskilstuna kynnti hvernig kynjasjónarmið hafa verið samþætt inn í almenna stjórnunarferla hjá sveitarfélaginu og Kristiansand kynnti hvernig kynjasamþætting er hluti af mannréttindastarfi sveitarfélagsins sem er svipuð leið og Reykjavíkurborg og Akraneskaupstaður hafa farið. Kristianssand hefur gert skemmtilegt myndband til að kynna mannréttindaáherslur sveitarfélagsins og það er aðgengilegt hér: https://www.youtube.com/watch?v=niAeTTHUrbo">https://www.youtube.com/watch?v=niAeTTHUrbo">https://www.youtube.com/watch?v=niAeTTHUrbo.

Þriðja og síðasta vinnustofan verður haldin í Osló 21.-22. maí nk. 

Það er hluti af verkefninu að yfirfæra þá þekkingu sem fæst úr því til annarra sveitarfélaga. Norræn sveitarfélög, og sérstaklega sænsk sveitarfélög, eru meðal þeirra fremstu í heimi í jafnréttismálum og norræn sveitarfélög hafa einkar góðar forsendur til að læra hvert af öðru þar sem stjórnkerfi og menning þeirra er svipuð, enda þótt verkefnið hafi þegar leitt í ljós að áherslur eru nokkuð mismunandi á milli landanna.


[1] Sænska sveitarfélagasambandið hefur gert myndband sem lýsir vel hvernig samþættingaraðferðarfræðin getur bætt þjónustu í sveitarfélögum, http://vimeo.com/77692813">http://vimeo.com/77692813">http://vimeo.com/77692813