Reynsluverkefni um íbúasamráð í sveitarfélögum

Kjarni fulltrúalýðræðisins á sveitarstjórnarstigi er að íbúar kjósa fulltrúa til að taka ákvarðanir um málefni sveitarfélags fyrir þeirra hönd. Til að geta rækt umboðsskyldur sínar þurfa kjörnir fulltrúar að vera í nánu sambandi við íbúa á milli kosninga og taka ákvarðanir með hliðsjón af þörfum og viðhorfum þeirra, að gættum heildarhagsmunum sveitarfélagsins. Slíkt stuðlar að vandaðri ákvörðunum, því íbúar eru sérfræðingar í nærumhverfinu sínu, og getur auk þess, þegar rétt er á haldið, leitt til að meiri sáttar um ákvarðanir og aukið áhuga íbúa á að taka virkari þátt í samfélaginu. Því er mikilvægt að byggja upp þekkingu í sveitarfélögum á samráði við íbúa í ákvarðanatöku. Þátttökuverkefni eins og Okkar Kópavogur o.fl. hafa verið sett á laggirnar á síðustu árum og skilað góðum árangri en slík verkefni eru bara ein af mörgum útfærslum á íbúalýðræði.

Samþætting íbúasamráðs

Samband íslenskra sveitarfélaga gaf á árinu 2017 út handbók um íbúasamráð og þátttöku íbúa þar sem kynntar eru markvissar aðferðir til að ná til íbúa og samþætta samráð við þá inn í ákvörðunartökuferla. Snemma á þessu ári setti Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við Akureyrarbæ og með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á fót verkefni sem leggur áherslu á að kenna sveitarfélögum að beita þeim aðferðum sem kenndar eru í handbókinni í raunverulegum aðstæðum og afla þannig reynslu sem getur nýst fleiri sveitarfélögum í framhaldinu (setja inn tengil á verkefnislýsingu).

Þátttökusveitarfélögin og verkefni þeirra

Fjögur sveitarfélög voru valin á grundvelli umsókna til að taka þátt í verkefninu. Þau eru:

  • Akureyrarbær
  • Kópavogsbær
  • Norðurþing og
  • Stykkishólmsbær
Lena Langlet og Anders North frá sænska sveitarfélagasambandinu, sem hafa unnið að hliðstæðum verkefnum með sænskum sveitarfélögum, eru sveitarfélögunum til ráðgjafar, ásamt sérfræðingum frá Alta. Sveitarfélögin hafa nú valið sér samráðsverkefni og fá stuðning og ráðgjöf í gegnum ferillinn á þremur vinnustofum með sænsku ráðgjöfunum og á milli þeirra frá Alta. Verkefnin sem sveitarfélög hafa valið sér eru fjölbreytt. Akureyrarbær valdi samráð um endurskipulagningu leiðakerfis Akureyrarstrætó, Kópavogsbær verkefni sem snýr að samráði við börn um innleiðingu barnasáttmálans, Norðurþing um uppbyggingu í íþróttamálum og Stykkishólmsbær uppbyggingu á leikvöllum bæjarins. Fyrsta vinnustofa verkefnisins var haldin í Kópavogi 23. ágúst síðastliðinn. Þar fengu sveitarfélögin kynningu á grunnhugmyndafræðinni frá sænskum sérfræðingunum, kynntu sínar hugmyndir um samráðsverkefni, fengu ráðgjöf um þau og hvernig vinna eigi fyrstu skref.

Vinnustofa á Akureyri 25. október 2019

Önnur vinnustofan var haldin 25. október sl. á Akureyri. Vinnustofan byrjaði á stuttri kynningu frá sænsku ráðgjöfunum um helstu áherslur og markmið íbúasamráðsverkefnisins, lykil þátttakendur og aðferðir til að virkja íbúa. Eftir þessa kynningu tóku sveitarfélögin við og kynntu stöðu sinna verkefna. Eftir hverja kynningu voru umræður og þau Anders og Lena komu með sitt álit, athugasemdir og leiðir fyrir sveitarfélög til að ná sínum markmiðum.

Norðurþing var fyrst í púltið með kynningu á uppbyggingu í íþróttamálum. Í kringum 70% barna æfa í núverandi íþróttamiðstöð, en eitt af markmiðum Norðurþings er að ná til barna sem eru ekki að nota núverandi íþróttamiðstöð og reyna að virkja þau. Markmiðið er að horfa til framtíðar og reyna að ráðstaða fjármagni sem best miðað við þarfir íbúa. Fulltrúar Stykkishólmsbæjar tóku því næst við og kynntu verkefni sitt sem snýr að uppbyggingu leikvalla í Stykkishólmi. Ungum íbúum Stykkishólms er að fjölga og því mun meiri þörf á fjölbreyttum leiksvæðum. Áhersla er á að fá álit frá notendum, bæði börnum og foreldrum, um hvernig tæki eigi að vera á leikvöllunum en einnig hvar sé best að koma upp nýju leikvöllunum. Kópavogsbær tók næst við og kynnti innleiðingu á barnasáttmála UNICEF í samráði við börn með áherslu á að ná til hópa barna sem hafa minni getu eða tækifæri til að taka þátt í samráði. Síðast en ekki síst kynnti Akureyrarbær verkefnið sitt en það er að endurskipuleggja leiðakerfi strætó. Markmiðið er að fá fleiri til að nota strætó og að breyta leiðakerfi strætó þannig að það henti sem flestum notendum. Í þessu verkefni er sérstök áhersla á þarfir ungra notenda á aldrinum 10-20 ára. Leitast verður við að fá fram hvernig notendur telja að hægt sé að gera leiðakerfið meira aðlaðandi fyrir þá.

Eftir kynningarnar frá sveitarfélögunum tóku Anders og Lena aftur við og voru með kynningar á mismunandi leiðum til að virkja íbúa, ólíkum vettvöngum sem er hægt að nota til að tala við íbúa, hvaða leiðir henta best fyrir samráð með börnum og hvað skal forðast í íbúasamráði. Anders og Lena tóku sérstaklega fyrir samráð við börn þar sem öll þátttökusveitarfélögin ætla að vinna með börnum, að einhverju eða öllu leyti, og samráð um samgöngur þar sem verkefnið sem Akureyri er með snýr að samgöngum. Þegar kemur að íbúasamráði er mikilvægt að átta sig að því að það er ekki til ein rétt leið sem hentar öllum, það eru margar ólíkar leiðir sem hægt er að fara og mikilvægt er að velja leið sem passar vel bæði fyrir sveitarfélagið og það verkefni sem unnið er að.

Vinnustofa 27. mars 2020

Síðasta vinnustofan verður haldin 27. mars nk. Þá eiga sveitarfélögin að vera búin að halda samráðsviðburði, vinna úr niðurstöðum samráðs og meta hvernig til tókst. Í þessari síðustu vinnustofu verður farið yfir reynslu og árangur og sveitarfélögin munu fá fræðslu frá sænsku ráðgjöfunum um gerð meginreglna um íbúasamráð til að leggja til grundvallar við áframhaldandi íbúasamráð í sveitarfélögunum. Hið endanlega markmið er að sveitarfélögin komi sér upp samráðsmenningu þannig að það sé öllum ljóst, bæði íbúum, starfsfólki og kjörnum fulltrúum, hvenær og hvernig sveitarfélagið ætlar að ástunda íbúasamráð. Jafnframt er ætlunin að halda opið málþing fyrir sveitarfélög þar sem þátttökusveitarfélögin munu miðla af reynslu sinni. Það er einnig þáttur í verkefninu að tveir meistaranemar í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands fylgjast með verkefninu og gera fræðilega úttekt á framkvæmd þess og árangri.