Stuðningur við stjórnmálaflokka

Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka

Með vísan til 5. gr. 2. mgr. laga nf. 162/2006 með síðari breytingum setti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eftirfarandi viðmiðunarreglur á fundi sínum þann 13. desember 2019:

Sveitarfélag skal veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið hið minnsta 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, árleg fjárframlög til starfsemi sinnar. Gilda hér um ákvæði 2. mgr. 5.gr. laga nr. 162/2006. Skal framlögum úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Miða skal við að greiða 175 kr. á hvern íbúa sem lögheimili á í sveitarfélaginu 1. janúar á ári hverju. Þessi fjárhæð tekur breytingum árlega miðað við vísitölu neysluverðs í október ár hvert og er grunnvísitalan 472,2 stig, m.v. október 2019.

Skilyrði úthlutunar framlaga er að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda, sbr. 8. og 9. gr. laga um laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra nr. 162/2006.

Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal úthlutað helmingi árlegs framlags fyrir kosningar, en síðari helmingi að þeim loknum og þá í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.

Reglur þessar eiga eingöngu við um þau sveitarfélög þar sem bundnar hlutfallskosningar til sveitarstjórna eru viðhafðar.

Um er að ræða viðmiðunarreglur og er sveitarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau nýti sér þær.


Stuðningur sveitarfélaga við stjórnmálaflokka (grein í sveitarstjórnarmálum 2008)

Í ljósi þess að starfsmönnum sambandsins berast reglulega fyrirspurnir um skyldur sveitarfélaga gagnvart stjórnmálaflokkum þykir undirrituðum rétt að gera hér stuttlega grein fyrir þeim breytingum sem urðu við setningu laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Meginefni laga nr. 162/2006

Í 5. gr. laganna, sem ber fyrirsögnina Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum, segir:

Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.

Í stuttu máli felst í lögunum sú regla að sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa ber nú skylda til að veita framboðum til sveitarstjórnar fjárstuðning. Jafnframt er fámennari sveitarfélögum heimilað að veita slíkan stuðning. Það er síðan á valdi hverrar sveitarstjórnar, í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, að ákveða hve hár stuðningurinn skuli vera en fjárhæðinni skal skipt eftir atkvæðamagni í kosningum til sveitarstjórnar.

Ríkissjóði ber að greiða framlög til stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í alþingiskosningum. Einnig hafa lögin að geyma reglur um reikningsskil og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Ríkisendurskoðun er skv. IV. og V. kafla laganna falið að gefa út leiðbeiningar og yfirfara reikninga þessara aðila.

Ekki er gert ráð fyrir því í lögunum að sveitarfélög eða fyrirtæki sveitarfélaga veiti þingflokkum eða einstökum frambjóðendum fjárstuðning. Verður raunar að líta svo á að 6. gr. laganna banni bæði þingflokkum og frambjóðendum að taka við framlögum frá sveitarfélögum og fyrirtækjum sem eru að meiri hluta í eigu eða undir stjórn ríkis eða sveitarfélaga.

Nánar um skyldur sveitarfélaga

Af orðalagi 5. gr. og lögskýringargögnum er ljóst að skylda sveitarfélaga með 500 íbúa eða fleiri er bundin við að styðja framboð sem buðu fram í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum í viðkomandi sveitarfélagi og hlutu a.m.k. 5% atkvæða. Lagagreinin útilokar þó væntanlega ekki að sveitarstjórn ákveði, líkt og nokkuð hefur tíðkast í sveitarfélögum, að ný framboð, sem hyggjast bjóða fram til sveitarstjórnar, njóti stuðnings í aðdraganda kosninga þótt ekki sé í lögunum kveðið á um slíkan stuðning.

Skyldur sveitarfélaga ganga raunar nokkuð skemra en lagt var til í frumvarpi sem formenn allra þingflokka lögðu fram á Alþingi, sbr. álit allsherjarnefndar Alþingis um frumvarpið, þar sem verulegt tillit var tekið til athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram koma í umsögn sambandsins frá 8. desember 2006:

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi þá að viðmiðun í 5. gr. um heimild og skyldu sveitarfélaga til að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 2,5% akvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar verði breytt þannig að samtökin hafi hlotið a.m.k. 5% atkvæða. Einnig er lögð til sú breyting á greininni að fellt verði brott ákvæði um að fjárhæð sem sveitarfélög úthluta til stjórnmálasamtaka sé í eðlilegu hlutfalli við stærð sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnir hafa því frjálsar hendur um það hve hár stuðningur er veittur, en eins og áður segir skal ákvörðun um framlög tekin samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar og gildir ákvörðunin því í eitt ár í senn. Til dæmis mætti hugsa sér að stuðningurinn verði annað hvort ákveðinn sem tiltekin krónutala fyrir hvert atkvæði sem greitt var viðkomandi lista eða sem tiltekin heildarupphæð sem skiptist á milli framboðslista í hlutfalli við atkvæðamagn.

Á móti þeim nýju skyldum sveitarfélaga sem fram koma í lögunum var létt af þeim kostnaði sem sveitarfélögin báru áður af framkvæmd kosninga til Alþingis og til embættis forseta Íslands. Lendir sá kostnaður nú alfarið í ríkissjóði.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs

- grein þessi birtist í Sveitarstjórnarmálum í ágúst 2008