Byggðamál

Skýrsla um stöðu landsbyggða í Evrópu

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti á haustþingi sínu 2017 skýrslu um stöðu landsbyggða í Evrópu undir yfirskriftinnni "A better future for Europe´s rural areas". Í skýrslunni er fjallað um tækifæri og áskoranir dreifbýlla svæða í Evrópu og hvernig hægt sé að takast á við þau.

Þetta er áhugaverð skýrsla fyrir alla, sem hafa áhuga á íslenskum byggðamálum, þar sem hún gefur aðgengilega yfirsýn.

Sveitarstjórnarþingið leggur í skýrslunni áherslu á að það sem einkennir dreifbýl svæði í Evrópu er félagslegur, efnahagslegur og umhverfislegur fjölbreytileiki. Sum dreifbýl svæði eru þau efnuðustu og skilvirkustu í viðkomandi löndum meðan önnur kljást við íbúaflótta, hækkandi meðalaldur, fátækt íbúa og yfirgefin lönd og fasteignir.  Þessi munur hafi orðið enn meira áberandi eftir efnahagshrunið 2008. Mörg dreifbýl svæði sem liggja nálægt borgum hafi orðið sterkari og lífvænlegri meðan svæði sem liggja lengra í burtu hafi ekki náð sér á strik. Langtímaáhrif hnattvæðingar, upplýsingartækninnar og loftslagsbreytinga stuðli að enn meiri mun á milli svæða. Sum dreifbýl svæði séu farin að njóta ávinnings af "new rural economy" sem felur í sér að þau eru ekki eins háð starfsemi sem tengist landnotkun og byggja á fjölbreyttari efnahagsstarfsemi, þ. á m. framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem nýtur góðs af framþróun upplýsingatækni og sveigjanlegra vinnufyrirkomulagi.  Til að takast á við þessa stöðu þarf nýja stefnumótunarnálgun fyrir dreifbýl svæði sem byggir á áskorunum og auðlindum hvers svæðis fyrir sig. Auk þess sé það mikilvæg forsenda fyrir árangri að auka tengsl og samstarf á milli þéttbýlla og dreifbýlla svæða.

Í ályktun þingsins, sem er hluti skýrslunnar, eru sveitarstjórnir á dreifbýlum svæðum hvattar til að vekja athygli almennings og þeirra sem bera ábyrgð á opinberri stefnumótun á fjölbreytileika dreifbýlla svæða; beina sjónum að auðlindum þeirra og möguleikum fremur en vandamálum. Þingið hvetur sveitarstjórnir til að móta staðbundnar byggðastefnur í samvinnu við alla þá sem geta lagt hönd á plóg til framþróunar, til að móta lágmarksþjónustustaðla til að tryggja samfellu í nauðsynlegri grunnþjónustu, til að bæta menntun og þjálfun, og til að styrkja frumkvöðla og nýsköpun og renna þannig fjölbreyttari stoðum undir efnahag svæðis.

Sveitarstjórnarþingið beinir því til að ráðherranefndar Evrópuráðsins að hvetja ríkisstjórnir aðildarríkja ráðsins til að þróa nýja tegund af byggðastefnu sem taki á sérstöðu hvers svæðis fyrir sig og byggi á þverfaglegri svæðisbundinni nálgun, og til að vinna að auknu jafnræði og velferð á þessum svæðum.

Í greinargerð sem fylgir ályktun og tilmælum, er kafli með tölulegum upplýsingum um þróun landsbyggða í Evrópu, farið er yfir hvernig O.E.C.D. og ESB hafa unnið að byggðamálum undanfarna tvo áratugi. Bæði samtökin hafi horfið frá "top down" nálgun og byggja nú á stöðunni innan svæða og að því að virkja aðila og auðlindir hvers svæðis fyrir sig.  Í sérstökum kafla er farið yfir megin áskoranir og tækifæri fyrir dreifbýl svæði í Evrópu og fyrirmyndarverkefni kynnt sem hafa stuðlað að félagslegri sjálfbærni og aðlögun svæða, skapað atvinnutækifæri, byggt upp þekkingu og innviði en það er á þessum sviðum sem helstu áskoranir dreifbýlla svæða liggja. Í lokin eru ábendingar um hvernig sé hægt að takast á við þau úrlausnarefni sem dreifbýl svæði standa frammi fyrir.

Á þessum tengli eru nánari upplýsingar um umfjöllun Sveitarstjórnarþingsins um málið og skýrslan í heild sinni

https://www.coe.int/en/web/congress/-/overcoming-the-challenges-specific-to-rural-areas

Þekkingaruppbygging í byggðamálum

Þekkingaruppbygging á byggðamálum hefur verið þáttur í aðildarferli Íslands vegna ESB umsóknarinnar. Meðal annars hafa allir landshlutar átt þess kost að fara í námsferð til aðildarríkja til að kynna sér fyrirkomulag byggðamála. Evrópsk byggðamál byggja á áætlunargerð fyrir svæði. Beitt er aðferðum ramma- og árangursstjórnunar og sveitarfélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

Við getum lært margt af evrópskum byggðamálum, burtséð frá aðildarumsókninni, m.a. um svæðasamvinnu, aðferðir við áætlunargerð og samstarf við hagsmunaaðila um hana. Hér eru skýrslur og kynningar frá námsferðunum:

  • Finnland - Tampere
  • Finnland - Oulu
  • Eistland
  • Írland
Byggdamal-2

Byggdamal-1