Landsáætlun um innviði

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Alþingi samþykkti áætlunina sem þingsályktun í júní 2018.

Samhliða stefnumarkandi landsáætlun er í gildi verkefnaáætlun til þriggja ára, en þar eru settar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Í verkefnaáætlun 2018-2020 er gerð tillaga um 71 ferðamannastað og eina ferðamannaleið.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur  skipað verkefnisstjórn um stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Verkefnisstjórnin skal annast upplýsingaöflun, forgangsröðun og gerð tillagna um stefnumarkandi tólf ára áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun. Verkefnisstjórnin skal við undirbúning tillagnanna leita eftir faglegri aðstoð hjá þeim opinberu stofnunum sem hafa umsjón með ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem eiga aðild að áætlununum, sbr. 8. gr. laganna..