Sóknaráætlanir landshluta

Í upphafi árs 2015 skrifuðu landshlutasamtökin undir samninga við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um sóknaráætlanir landshluta fyrir árin 2015-2019. Markmið þeirra er að ráðstafa þeim fjármunum sem ríkið hefur varið í atvinnu-, byggða- og menningarmál í hverjum landshluta fyrir sig í samræmi við stefnu sem landshlutinn mótar sjálfur á þessum sviðum.

Áætlanirnar eiga að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landhluta og þannig landsins alls. Einnig er áætlununum ætlað einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Á heimasíðu Byggðastofnunnar er nú hægt að nálgast sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta fyrir sig.

Landshlutarnir átta hafa allir unnið sóknaráætlanir fyrir sín svæði. Þar kemur meðal annars fram framtíðarsýn þeirra, stefnumótun og hvernig þeir forgangsraða þeim fjármunum sem renna til sóknaráætlunar á hverju ári. Í öllum landshlutum voru myndaðir samráðsvettvangar heimamanna sem komu að mótun áætlanna og forgangsröðun verkefna. Samráðsvettvangarnir eru ólíkir eftir landshlutum bæði hvað varðr samsetningu og fjölda þátttakenda. Í öllum tilfellum voru þar fulltrúar sveitarstjóra, atvinnulífs og stoðstofnana og eftir atvikum aðrir. Þátttakendur voru á bilinu 30-100. Ábyrgð á vinnunni var í öllum tilvikum hjá stjórnum landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, á sæti í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sem hefur umsjón með gerð sóknaráætlana fyrir landshluta og annast samskipti við landshlutasamtök sveitarfélaga vegna þeirra.