Byggðaáætlun - sóknaráætlanir landshluta

Hluti af vinnulagi við undirbúning Sóknaráætlunar 20/20 fyrir Ísland var að boða til þjóðfunda í  landshlutunum þar sem þátt tóku fjöldamargir landsmenn; íbúar, hagsmunaaðilar og fulltrúar sveitarstjórna á svæðunum átta. Á fundunum var leitað eftir sérstöðu svæðisins að mati heimafólks. Nánar tiltekið, hvar leyndust tækifæri í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu sem önnur landssvæði ættu erfitt með að líkja eftir. Til að gefa þátttakendum dýpri sýn á eigin landssvæði og auðvelda þeim matið lágu fyrir skýrslur með tölfræði um viðkomandi svæði. Gengið var út frá því að á hverjum fundi fyrir sig kæmu fram hugmyndir og tillögur tengdar sérstöðu sem nýtast mættu í Sóknaráætlun. Slík áætlun drægi fram helstu möguleika þess til sóknar í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu. Fulltrúar frá landshlutasamtökum sveitarstjórna á hverju svæði fóru að því loknu yfir útkomuna og skiluðu skýrslum til stýrihóps Sóknaráætlunar á vordögum 2010.