Nánar um sóknaráætlanir landshluta

Fyrstu sóknaráætlanir landshluta lágu fyrir í ársbyrjun 2013 og voru samningar vegna þeirra undirritaðir af fjármálaráðherra og formönnum landshlutasamtaka skömmu síðar. Núgildandi samningar voru síðan undirritaðir af ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, ráðherra mennta- og menningarmála og formönnum landshlutasamtakanna í ársbyrjun 2015 og gilda til ársloka 2019.

Hvað eru sóknaráætlanir landshluta?

Sóknaráætlanir eru samstarfsverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga í byggðaþróunarmálum og eru að því leyti nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu. Markmið samstarfsins er að auka völd og ábyrgð staðbundið á samfélags- og byggðaþróun með aukna velsæld landsins alls að leiðarljósi. Tilurð þessara áætlana má rekja aftur að hugmyndafræði sem hafin var vinna við árið 2011 innan stjórnarráðsins og gat af sér ríkisstjórnarsamþykktina Ísland 2020, umfangsmikla framtíðarsýn fyrir aukinn vöxt í öllum hlutum landsins. Þar er svo einnig lagt til að ráðuneyti, landshlutasamtök, hlutaðeigandi stofnanir, sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og haghafar á hverju svæði komi sameiginlega að gerð sóknaráætlunar fyrir hvern landshluta.

Áhersluverkefni og uppbyggingarsjóðir

Sóknarætlanir veita fé til tveggja mismunandi þátta eða áhersluverkefna og uppbyggingasjóða og er hverjum landshluta er í sjálfsvald sett hvernig framlögum er varið. Ríkið setur þó það skilyrði að 55% grunnframlags renni að lágmarki til uppbyggingasjóða auk þess sem sjóðirnir styrkja að jafnaði ekki meira en 50% af heildar kostnaði hvers verkefni. Þá er hámarks á umsýslukostnað einnig krafist og þar sem fjármunum á höfuðborgarsvæðinu er einungis veitt til áhersluverkefna, er sóknaráætlun þess svæði eðlilega undanþegin skilyrðum vegna grunnframlags. Áhersluverkefni eru samningsbundin verkefni sem stjórnir landshlutasamtaka gera tillögur um og hafa beina tilvísun til sóknaráætlunar og þeirra áherslna sem komið hafa fram á samráðsvettvangi landshlutans. Uppbyggingarsjóðirnir eru aftur á móti samkeppnissjóðir sem hafa það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni ásamt þeim verkefnum öðrum sem falla að sóknaráætlun landshlutans.

Hvenær voru fyrstu sóknaráætlanir gerðar?

Stýrinet stjórnarráðsins um sóknaráætlanir landshluta var síðan skipað snemma árs 2012 og verkefnastjóri ráðinn. Stýrinetið vann m.a. með einstökum landshlutum og öðrum haghöfum að því að samþætta ríkissamninga vegna t.a.m. vaxta- og menningarsamninga og atvinnuþróunarfélaga við sóknaráætlanir einstakra landshluta. Þá vann það einnig að fjármögnunarfyrirkomulagi sóknaráætlana og viðmiðunarreglum um skiptingu fjármuna milli landshluta og málaflokka.

Hvernig eru sóknaráætlanir gerðar?

Aðferðafræði sóknaráætlana hefur frá upphafi byggst á miklu samstarfi þeirra sem að þeim koma. Samráð og samvinna ríkis og sveitarfélaga fer fyrst og aðallega fram í gegnum stýrihóp stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitarfélaga. Samvinna ráðuneyta fer fram í gegnum stýrihópinn og samvinna sveitarfélaga og helstu haghafa innan landshluta fer fram í gegnum landshlutasamtök sveitarfélaga. Heima í héraði eru sóknaráætlanir unnar undir forystu viðkomandi landshlutasamtaka, auk þess sem samráðsvettvangur skipaður í hverjum hluta landsins vegna áætlunargerðarinnar.

Fyrirkomulag-soknaraaetlanaFyrirkomulag sóknaráætlunar í hverjum landshluta

Stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál

Stýrihópurinn leysti stýrinet stjórnarráðsins um sóknaráætlanir af hólmi um mitt ár 2014.

Hefur mat farið fram á árangri sóknaráætlana?

Í framhaldi af því að stýrinet stjórnarráðsins um sóknaráætlanir var lagt niður í ársbyrjun 2014, lét atvinnu- og nýsköpunarráðherra gera úttekt á framkvæmd sóknaráætlana landshluta. Niðurstaða úttektarinnar er m.a. sú, að sóknaráætlunarsamningar væru á heildina litið mikið framfaraspor. Þeir beindu samskiptum ríkis og sveitarfélaga í frjóan farveg og væru vel til þess fallnir að auka völd og ábyrgð í öllum hlutum landsins. Hvað stýrinetið snerti, þá voru störf þess sögð marka mikilvægan áfanga í faglegri áætlanagerð hér á landi. Á hinn bóginn var svo einnig bent á, að tryggja verði betri samþættingu í opinberri áætlanagerð og auka þurfi samræmi í mati og eftirfylgni vegna sóknaráætlana.

Lög nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir

Verklag og hugmyndafræði sóknaráætlana var endanlega fest í sessi með lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Auk þess sem landshlutasamtökum sveitarfélaga er falið að vinna sóknaráætlanir á sínu svæði hver, er tilurð og hlutverk stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál skilgreint. Stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál, sem tók við af stýrinetinu, er síðan ætlað að samhæfa byggðamál innan stjórnarráðsins og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þeim málum. Öll mál sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta ber að skilgreina sem byggðamál, s.s. búseta, atvinna og nýsköpun, ásamt þeim verkefnum sem efla staðbundið samfélag, félagsauð, atvinnulíf, menntun, menningu, velferðarmál og samgöngur. Þá er stýrihópurinn einnig ríkisstjórn til ráðgjafar í byggðamálum.

Munur á núverandi og eldri samningum

Núgildandi samningar byggja á sama grunni og áður, en með nokkrum undantekningum þó. Má þar helst nefna að samningarnir eru til fimm ára en ekki eins árs eins og tíðkaðist. Uppbyggingarsjóðir hafa jafnframt verið stofnaðir í öllum landshlutun utan höfuðborgarsvæðisins og vaxtar- og menningarsamningar hafa verið samþættir við sóknaráætlanir landshlutanna. Þá er stefnan sú, að sóknaráætlanir myndi fastan farveg fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd byggðaáætlunar og að fleiri málaflokkar og samningar tengist við sóknaráætlanir.

Hvernig skiptast fjármunir?

Við skiptingu fjármuna til sóknaráætlana landshluta er notað reiknilíkan þar sem tekið er tillit til fjölmargra þátta á borð við íbúafjölda, íbúaþróunar, umfang atvinnusóknarsvæða, atvinnuleysis, útsvarstekna sveitarfélaga og fjarlægðar frá Reykjavík, svo að það helsta sé nefnt. Auk þess skipar höfuðborgarsvæðið þá sérstöðu að þangað er fjármagni er ekki veitt vegna uppbyggingarsjóðs heldur eingöngu til áhersluverkefna.