Framtíðarsýn fyrir grunnskólastarf

Þann 8. mars 2007 undirrituðu FG, SÍ og Launanefnd sveitarfélaga samkomulag um aðgerðaáætlun samhliða kjaratengdri vinnu. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að ná fram breyttu vinnulagi í samskiptum þessara aðila og leggja aukna áherslu á samræðu um faglega þætti og þróun skólastarfs sem lögð yrði til grundvallar sameiginlegri framtíðarsýn. Aðgerðaáætlunin fól í sér að aðilar ætluðu annars vegar að vinna sameiginlega að mótun framtíðarsýnar fyrir grunnskólann og hins vegar að greina gildandi kjarasamning í þeim tilgangi m.a. að skilgreina hverju þurfi að breyta svo ákvæði hans styðji við nauðsynlega framþróun í samræmi við sameiginlega framtíðarsýn í skólamálum.  Alls komu 23 aðilar frá ofangreindum þremur aðilum að framtíðarsýnarvinnunni, sem Hrönn Pétursdóttir verkefnisstjóri stýrði.

Afrakstur þessa starfs er skýrsla sem inniheldur sameiginlegar tillögur að stefnumörkun til ársins 2020 fyrir grunnskólastarf. Henni fylgja tillögur að markmiðum, mælikvörðum, viðmiðum og aðgerðum og byggir á aðferðafræði Balanced Scorecard. Stjórnir og skólamálanefndir FG, SÍ og sambandsins samþykktu svo stefnumörkunina eftir sameiginlga kynningarfundi sem haldnir voru vítt og breitt um með skólastjórum, kennurum og öðrum starfsmönnum skóla, foreldrum, sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skólamálum.

Hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga starfaði frá september 2009 til ágúst 2011 sérstakur verkefnisstjóri sem m.a. hafði það verkefni með höndum að innleiða framtíðarsýnina og aðstoða sveitarfélög við gerð skólastefnu. Í tengslum við störf verkefnisstjóra voru tekin saman gögn úr fyrirliggjandi rannsóknum sem sýna stöðu á ýmsum mælikvörðum úr Framtíðarsýninni við fyrri hluta þess tímabils sem hún nær til, eða frá 2007-2010.  Samantekt rannsóknarniðurstaðna er ætlað að gefa grunnlínu sem hægt er að bera síðari mælingar saman við og fylgjast þannig með framgangi stefnunnar og segja til um hversu vel gengur að ná settum markmiðum.

Í verkefnisstjórn um sameignlega framtíðarsýn fyrir grunnskólastarf til ársins 2020 eiga sæti:

  • Guðlaug Erla Gunnarsdóttir frá Skólastjórafélagi Íslands,
  • Þórður Hjaltested frá Félagi grunnskólakennara og
  • Ragnar Þorsteinsson fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  • Starfsmaður verkefnisstjórnar er Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi.