Tónlistarskóli

Sveitarfélögin bera ábyrgð á tónlistarfræðslu á grunn-, mið- og framhaldsstigi. Um tónlistarfræðslu gilda lög nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

Tónlistarskólar sem falla undir lögin þurfa m.a. að fullnægja því skilyrði að hafa hlotið sérstakt samþykki menntamálaráðuneytisins og jafnframt þarf samþykki viðkomandi sveitarstjórnar ef skóli er rekinn af þriðja aðila. Ef ekki liggur fyrir samþykki sveitarfélagsins skv. 3. gr. laganna þá uppfyllir skóli ekki þau skilyrði að vera tónlistarskóli. Endurskoðun laganna hefur staðið yfir um árabil og sérstök viðræðunefnd ríkis og sveitarfélaga vinnur nú að gerð tillagna um verkaskiptingu þessara aðila.

Á grundvelli samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 greiðir ríkissjóður á ársgrundvelli 480 milljónir króna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annast úthlutanir framlaga til sveitarfélaga. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 milljónum króna á ársgrundvelli.

Innanríkisráðherra hefur gefið út reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda þar sem samkomulagið er nánar útfært.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglnanna nr. 1 ber sveitarfélögum að skila umsóknum vegna skólaársins 2011 – 2012 til Jöfnunarsjóðs eigi síðar en 30. september næstkomandi. Skulu þær byggðar á upplýsingum frá tónlistarskólum um endanlega nemendaskrá skólaársins. Nánari leiðbeiningar koma fram í bréfi sem jöfnunarsjóður hefur sent sveitarfélögum.