Nýsköpun

Nýsköpun í opinberum rekstri hefur líklegast aldrei verið mikilvægari en nú. Framundan eru miklar áskoranir fyrir hið opinbera vegna öldrunar íbúa  sem mun leiða til þess að velferðarþjónusta verður þyngri og skatttekjur munu dragast saman. Samhliða gera íbúar stöðugt meiri kröfur til opinberrar þjónustu og til þess að hún sé sem mest sniðin að þeirra einstaklingsþörfum. Til að takast á við þessi úrlausnarefni verður að skapa nýjar lausnir til að veita opinbera þjónustu. Núverandi rekstrarform eru ekki sjálfbær til framtíðar litið.

Nýsköpunarvogin

Nýsköpunarvogin er könnun á umfangi og eðli nýsköpunar hjá hinu opinbera. Könnunin hefur verið framkvæmd á öllum Norðurlöndunum og hér á landi árin 2018-2019. Á tenglinum hér fyrir neðan er unnt að kynna sér betur könnunina og niðurstöður hennar. 

Nánar um nýsköpun

Mikilvægt er að hin pólitíska forysta hvetji til og styðji við nýsköpun í starfsemi sveitarfélaga. Nýsköpun á ekki að snúast bara um einstök verkefni heldur þarf að skapa nýsköpunaranda í starfseminni og yfirstjórnendur þurfa að hafa forystu um það. Jákvæð og markviss mannauðsstjórnun er einnig mikilvæg forsenda. Það þarf að skapa jákvæðan anda meðal starfsfólks og hvatningu til nýsköpunar.

Í nýsköpunarferlum er lausnin ekki þekkt en ferlinu er hrint af stað vegna þess að það er einhver þörf sem þarf að byrja á að greina. Nýsköpun felur í sér tilraunastarfsemi og það er ekki öruggt að tilraunin heppnist. Það er aldrei hægt að vita fyrirfram  hver árangurinn verður. Það nægir ekki að vera með góða hugmynd. Það þarf að framkvæma breytingu sem leiðir til þess að hægt er að leysa ákveðna þörf. Nýsköpun býr til nýtt verklag, nýja þjónustu eða nýtt samstarf.

Mikil tækifæri eru fólgin í auknu samstarfi við notendur um hönnun á nýjum þjónustulausnum þannig að þjónustan sé mótuð út frá þörfum notendanna. Þróun þjónustunnar á sér þá stað í gagnvirkum ferli á milli þess sem veitir þjónustuna og þess sem notar hana.  Þetta eykur gæði þjónustunnar og skilvirkni þar sem hægt er að komast hjá ónauðsynlegum þjónustuþáttum. Þetta eykur líka traust notendans á þjónustunni og er stundum kallað notendalýðræði.  Annað tækifæri í samstarfi við íbúa er að virkja félagsauðinn til að styðja við opinbera þjónustu með því að einstaklingar eða félagasamtök taki að sér ákveðna þjónustuþætti.

Það er líka mikilvægt að læra af öðrum. Engin er með einkaleyfi á nýjum lausnum í opinberri þjónustu og það er óþarfi að vera alltaf að finna upp hjólið.

Bæði OECD og Evrópusambandið leggja aukna áherslu á nýsköpun í opinberum rekstri, m.a. með veitingu viðurkenninga sem   íslenskir aðilar hafa hlotið.  OECD hefur síðastliðin tvö ár unnið að nýsköpun í opinberum rekstri með hópi aðildarríkja, "Observatory of Public Sector Innovation". Á vefsíðu OECD, http://www.oecd.org/governance/public-innovation/,  eru miklar upplýsingar um nýsköpun hjá hinu opinbera og fyrirmyndarverkefni. Þar eru m.a. upplýsingar um fjögur íslensk verkefni sem hafa líka hlotið viðurkenningu fyrir nýsköpun hér á landi.

Á Íslandi hafa ríki og sveitarfélög haft með sér samstarf frá árinu 2012 um veitingu nýsköpunarverðlauna til að hvetja til nýsköpunar hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands hafði frumkvæði að þessu verkefni og heldur úti vefsíðu um nýsköpun hjá hinu opinbera, www.nyskopunarvefur.is. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um nýsköpun hjá hinu opinbera og innlenda og erlenda tengla.

Nýsköpunardagur hins opinbera 2019

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í fyrsta sinn í júní 2019. Að deginum stóðu Fjármála- og efnahagsráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Á nýsköpunardeginum opnaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra,  nýja vefsíðu um opinbera nýsköpun.

Af áhugaverðum erindum dagsins má nefna nýsköpun með samsköpun, sem Anne Tortzen, fjallaði um, en Anne er einn helsti sérfræðingur Norðurlandanna í úrlausn flókinna viðfangsefna í opinberri þjónustu með samsköpun. Þá kynntu Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær nýsköpunarverkefni innan sinna raða og sagt var frá nýsköpunarmóti sem haldið verður nú í haust með það að markmiði, að auka samstarf opinberra aðila og einkaaðila - svo að fátt eitt sé nefnt.

Dagskrá nýsköpunardagsins var send út í beinu streymi og má finna tengla á upptökur og erindi hér að neðan.