Siðamál í sveitarfélögum

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi 1. janúar 2012. Meðal nýmæla sem þá komu inn í löggjöfina eru ákvæði um siðareglur sveitarstjórna og siðanefnd. Umrædd ákvæði eru í 29. gr. sveitarstjórnarlaga sem hljóðar þannig:

29. gr.
Siðareglur og góðir starfshættir.
Sveitarstjórn skal setja sér siðareglur sem sendar skulu ráðuneytinu til staðfestingar. Ef siðareglur eru í gildi skal ný sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til endurskoðunar þeirra. Ef niðurstaðan er sú að siðareglur þarfnist ekki endurskoðunar halda þær gildi sínu. Tilkynna skal ráðuneytinu um þá niðurstöðu.
Siðareglur sveitarstjórnar skulu birtar opinberlega á vefsíðu sveitarfélagsins eða á sambærilegan hátt.
Öllum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórn skipar ber að haga störfum sínum í samræmi við settar siðareglur.
Samband íslenskra sveitarfélaga skipar nefnd sem veitt getur álit um siðareglur og um ætluð brot á þeim. Ráðuneytið getur borið tillögur sveitarstjórna um siðareglur undir nefndina áður en það tekur þær til staðfestingar.

Í maí 2015 höfðu 59 af 74 sveitarstjórnum landsins sett sér siðareglur.  Yfirlit um siðareglur sveitarfélaga og endurskoðun þeirra má finna á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Siðareglur sem sveitarstjórn setur gilda fyrir fulltrúa í sveitarstjórn sem og nefndir og ráð sveitarstjórnar. Siðareglurnar þurfa staðfestingu innanríkisráðuneytisins og skulu þær birtar opinberlega á vefsíðu sveitarfélaga eða á annan sambærilegan hátt og eru þannig aðgengilegar öllum. Siðareglur halda gildi sínu þar til annað er ákveðið af viðkomandi sveitarstjórn eða þeim sem síðar eru kjörnar.

Siðareglur á grundvelli 29. gr. sveitarstjórnarlaga gilda hins vegar ekki um ráðna stjórnendur og aðra starfsmenn sveitarfélaga. Sveitarstjórn getur engu að síður sett siðareglur sem gilda um starfsmenn sveitarfélagsins, en þær reglur hljóta ekki staðfestingu ráðuneytisins. (15. júlí 2015)