Stjórnsýslulög - Upplýsingalög

Stjórnsýslulög

Grundvallarlög um framkvæmd stjórnsýslu eru stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Lögin gilda m.a. um stjórnsýslu sveitarfélaga að öðru leyti en því að reglur laganna um sérstakt hæfi gilda ekki um sveitarstjórnarmenn vegna sérreglu sveitarstjórnarlaga um það efni, sbr. 19. gr. svstjl.

Lögin gilda þegar handhafi stjórnsýsluvalds tekur ákvörðun um rétt manna og skyldur, þ.e. svokallaða stjórnvaldsákvörðun. Í lögunum er að finna almennar reglur um meðferð stjórnsýslumáls, þ. á m. um andmælarétt, reglur um birtingu ákvörðunar, rökstuðning, afturköllun ákvörðunar, stjórnsýslukærur og fleira.

Lögin fela í sér lágmarkskröfur sem gera verður til stjórnsýslunnar. Það hefur m.a. þá þýðingu að stjórnsýsla sveitarfélaga má ekki fela í sér lakari rétt fyrir borgara en lögin gera ráð fyrir en hins vegar geta sérákvæði laga eða samþykkta sveitarfélaga gert strangari kröfur til stjórnsýslunnar en felast í lögunum.

Upplýsingalög

Upplýsingalög nr. 50/1996 gilda m.a. um stjórnsýslu sveitarfélaga. Lögin fela í sér reglur um upplýsingarétt almennings að upplýsingum og upplýsingarétt aðila um upplýsingar um hann sjálfan. Í lögunum er að finna nánari reglur um hvernig upplýsingaréttinum skuli fullnægt, s.s. um rétt til ljósrita og afrita, og ákvæði um úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem hægt er að vísa málum til ef ágreiningur rís um framkvæmd upplýsingalaga.