Helstu breytingar í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011

Til að auðvelda sveitarstjórnarmönnum að kynna sér efni hinna nýju sveitarstjórnarlaga hefur sambandið tekið saman yfirlit um þær breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpinu áður en það varð að lögum þann 17. september 2011.

Helstu breytingar eru þessar:

 • Breytt orðalag í 2. gr. um hlutverk ráðherra sveitarstjórnarmála.
 • Stjórnsýsluheiti sveitarstjórna og æðstu stjórnenda verða óbreytt miðað við gildandi lög.
 • Viðmiðunartími í 11. gr., til ákvörðunar um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa, er styttur úr átta í fjögur ár. Felld var breytingartillaga um að fjöldi borgarfulltrúa skyldi vera á bilinu 15-31 og verður fjöldi þeirra því á bilinu 23-31.
 • Nægilegt er að boða sveitarstjórnarfundi með 2ja sólarhringa fyrirvara, 15.gr.
 • Heimilað að taka ný mál á dagskrá ef 2/3 fundarmanna samþykkja, 27. gr.
 • Heimild til að setja siðareglur er breytt í skyldu, 29. gr.
 • Heimildir byggðarráða til fullnaðarákvarðana verða óbreyttar frá gildandi lögum, 35. gr.
 • Nefndum heimilað að halda opna fundi, 46. gr.
 • Réttur til að tilnefna áheyrnarfulltrúa nær bæði til byggðarráðs og fastanefnda sem hafa vald til fullnaðarákvarðana, 50. gr.
 • Reglugerðarákvæði í 2. mgr. 58. gr. fellt brott. Það er því sveitarstjórnar að ákveða í samþykkt sinni hvort byggðarráð fær vald til fullnaðarákvörðunar um fjárhagsmálefni sem tilgreind eru í 5. og 6. tl. 1. mgr. sömu greinar.
 • Samanburður í ársreikningi taki bæði til upphaflegrar áætlunar og upphaflegrar áætlunar ásamt viðaukum. Skýrar kveðið á um það að byggðarráð (eða frkvstj.) leggi ársreikning fram til staðfestingar, 61. gr.
 • Skerpt á ákvæðum um fjárhagsáætlanir og heimildum til að færa til fjárheimildir án þess að samþykktur sé viðauki, 62. og 63. gr.
 • Tekið fram að sveitarfélögum er heimilt að taka þátt í atvinnuverkefnum í ljósi brýnna samfélagshagsmuna, 65. gr.
 • 72. gr. um endurskoðendur er umskrifuð. Hámarksráðning er 7 ár samfleytt.
 • Skýrari reglur um úrgöngu úr byggðasamlagi og innlausn, 94. og 95. gr. Svigrúm ráðherra til að fresta úrgöngu eða innlausn stytt í fimm ár.
 • 108. gr. breytt í veigamiklum atriðum um heimild íbúa til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál. Sveitarstjórn getur ákveðið hærra hlutfall en 20% og skýrt tekið fram að heimildin nái ekki til fjárhagsáætlunar, viðauka við fjárhagsáætlun, tekjustofna eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, ráðningar í störf eða tillögur sem ganga gegn lögum.
 • „Húsleitarheimild“ ráðuneytisins felld brott, 113. gr.
 • Skyldu ráðuneytis til að fella úr gildi samninga breytt í heimild við tilteknar aðstæður, 115. gr. Einkaréttarlegir samningar verða eingöngu felldir úr gildi ef þeir fara í veigamiklum atriðum í bága við lög.
 • Fallið frá ákvæði um dagsektir á sveitarstjórnarmenn, 117. gr.
 • Málshöfðunarréttur sveitarstjórna útvíkkaður til fyrirmæla, ákvarðana og úrskurða, 118. gr.
 • 128. gr. (áður 129. gr.) um samráð ríkis og sveitarfélaga breytt umtalsvert. Jónsmessunefnd lögfest sem kjölfestan í samstarfinu og nefnist nú samstarfsnefnd.
 • Samgöngunefnd bætir við nýrri grein um málstefnu, 130. gr.
 • 132. gr. um tilraunir í stjórnsýslu sveitarfélaga nær einnig til samstarfsverkefna.
 • Samþykkt voru bráðabirgðaákvæði um:
  • endurskoðun fjármálaákvæða laganna innan fimm ára,  með hliðsjón af framkvæmd þeirra
  • að sveitarstjórnir sem ekki uppfylla viðmið um rekstur og skuldastöðu skv. 64. gr. skuli samþykkja raunhæfa áætlun fyrir 1. september 2012 um hvernig þau hyggist ná viðmiðunum. Sé slíkt nauðsynlegt má áætlunin gera ráð fyrir allt að tíu ára aðlögunartíma
   heimild til þess að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki í eigu sveitarfélaga við útreikning fjárhagslegra viðmiða, í allt að tíu ár frá gildistöku laganna
  • að endurskoðun samþykkta um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga skuli lokið fyrir 1. janúar 2013. Fram að þeim tíma halda samþykktirnar gildi sínu að því leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði laganna

Loks skal tekið fram að breytingartillaga um að lögfesta 1.500 íbúa lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga var felld með miklum meirihluta atkvæða.