Vegvísir sveitarstjórnarmanna

Sambandið hefur tekið saman yfirlit um slóðir sem mikilvægt er fyrir kjörna sveitarstjórnarmenn að hafa greiðan aðgang að í störfum sínum. Samantektin hefur fengið heitið Vegvísar sveitarstjórnarmanna. Með því að þræða þessar slóðir má auðveldlega finna margvíslegt efni sem sveitarstjórnarmenn þurfa að styðjast við og gagnast í störfum þeirra.

Athugið að tenglar eru á öllum orðum sem eru blálituð.

Heimasíða Sambands íslenskra sveitarfélaga
Á heimasíðu sambandsins er að finna upplýsingar um hlutverk, starfsemi og starfsmenn sambandsins. Auk þess eru þar upplýsingar um öll sveitarfélög og fjölþætt efni um sveitarstjórnamál.  Landsþing fer með æðsta vald í málefnum sambandsins og þar sitja fulltrúar sveitarfélaga í landinu.

Sveitarstjórnarlög Ný sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 tóku gildi þann 1. janúar 2012.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda um málsmeðferð stjórnvalda þegar teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

Samþykkt um stjórn og fundarsköp, sem hver einstök sveitarstjórn setur sér, felur í sér sérreglur fyrir viðkomandi sveitarfélag. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gefið út fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags og er vísað til sveitarstjórnarskrifstofu ráðuneytisins í því sambandi.


Lagarammi sveitarfélaga

Skipta má lagaramma sveitarfélaga í tvennt. Annars vegar er um að ræða lög sem setja almennan ramma utan um starfsemi þeirra. Nefna má hér sem dæmi stjórnarskrá, sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Hins vegar eru sérlög á ýmsum valdsviðum sveitarfélaga. Þar má nefna sem dæmi lög um grunnskóla nr. 91/2008, lög um leikskóla nr. 90/2008, lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008, skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki nr. 160/2010  lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, hafnalög o.fl. Hér má sjá yfirlit um helstu lögákveðin verkefni sveitarfélaga. Nánar er kveðið á um helstu verkefni sveitarfélaga í Skýrslu félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál frá árinu 2005.

Á vef Alþingis er lagasafnið birt í heild sinni.

Í reglugerðum, sem settar eru á grundvelli laga, er að finna nánari útfærslu laga og framkvæmd þeirra. Reglugerðir eru birtar í Stjórnartíðindum en auk þess eru allar reglugerðir birtar á Netinu og hér er hægt að tengjast reglugerðarsafninu.


Réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna

Reglur um þau er að finna í sveitarstjórnarlögum og í samþykkt sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp. Einnig er bent á námskeiðsgögn frá árinu 2018 um hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna sem nálgast má á vef sambandsins.


Fundir og fundarsköp

Allar ákvarðanir sveitarstjórna eru teknar á fundum. Mikilvægt er því að kjörnir sveitarstjórnarmenn kunni góð skil á fundarsköpum og réttindum og skyldum sem tengjast fundum sveitarstjórna. Um fundi sveitarstjórnar og undirbúning þeirra gilda nákvæmar formreglur. Þær er að finna í II. kafla sveitarstjórnarlaga.

Í 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli „gera sérstaka samþykkt um um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitafélagið annast“, þar skal einnig kveðið á um fundarsköp sveitarstjórnar og nefnda hennar. Sveitarstjórnarráðuneytið semur fyrirmynd að samþykkt og fundarsköpum fyrir sveitarstjórnir og er í því sambandi vísað á sveitarstjórnarskrifstofu innanríkisráðuneytisins.

Í þessu sambandi má benda á námsefni frá námskeiðum sem haldin voru að afloknum sveitarstjórnarkosningunum 2010 sem heitir Að stýra fundi - Ritun fundargerða. Þá má einnig benda á gátlista vegna sveitarstjórnarfunda sem tekinn var saman í tengslum við námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn árið 2007.


Verkefni sveitarfélaga

Sveitarfélögin hafa margháttuðum skyldum að gegna. Þeim er ætlað að leysa af hendi þau verkefni sem þeim eru falin innan ramma laga auk þess sem þau hafa visst svigrúm til að taka að sér önnur verkefni. Sveitarfélögin gegna einnig mikilvægu samfélagslegu hlutverki þar sem þau sinna hagsmunagæslu fyrir íbúa sína og er ætlað að efla þátttöku þeirra í sameiginlegum málum sveitarfélagsins. Hlutverk sveitarfélaganna hefur verið að þróast og breytast á undanförnum áratugum að undangengnum viðræðum milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu mikilvægra þjónustuverkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Meðal mikilvægra verkefna sveitarfélaganna má nefna:


Skipulag sveitarfélaga

Aðalskipulag sveitarfélagsins mótar stefnu um þróun byggðar þess. Á vef Skipulagsstofnunar má finna lög og reglugerðir á verksviði stofnunarinnar. Skipulagsstofnun heyrir undir umhverfisráðherra og starfar skv. skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun sinnir afgreiðslu og veitir leiðbeiningar um skipulags- og byggingarmál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Stofnunin varðveitir og veitir upplýsingar um gildandi skipulagsáætlanir á öllu landinu. Á heimasíðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er m.a. að finna leiðbeiningar um kærur, gagnlega tengla og úrskurði sem nefndin hefur kveðið upp. Þar er einnig leitarvél sem býður uppá ýmsa valkosti. 


Fjármál sveitarfélaga

Í VII. kafla sveitarstjórnarlaga er fjallað um fjármál sveitarfélaga, þ.e. bókhald, reikningsskil, ársreikninga, fjárhagsáætlanir, útgjöld og fjárfestingar, endurskoðun, flokkun í reikningsskilum o.fl. Í þessu sambandi þarf að huga að lögum um ársreikninga og góðum reikningsskilavenjum.

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. fasteignaskatt, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og útsvar.

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur gefið út vefritin „Þriggja ára fjárhagsáætlanir sveitarfélaga“ og „Að ná undirtökum á fjármálunum“.  Auk þess gefur hag- og upplýsingasvið út Árbók sveitarfélaga þar sem fjallað er um niðurstöður ársreikninga sveitarfélaga.

Í tengslum við námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn, sem haldin voru í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2010, um lagalega umgjörð, fjármálastjórn og vinnuveitendahlutverk sveitarfélaga.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Í III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en sjóðurinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki við jöfnun tekna og útgjalda sveitarfélaga.

Lánasjóður sveitarfélaga ohf.

Lánasjóður sveitarfélaga ohf. er lánafyrirtæki, sem starfar eftir hlutafélagalögum nr. 2/1995, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, lögum um sjóðinn nr. 150/2006 og er undir eftirliti Fjármálaeftirlits.

Meginhlutverk lánasjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Útlán hans takmarkast þó við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu.

Jafnframt er það markmið lánasjóðsins að skapa öfluga samkeppni á lánsfjármarkaði fyrir sveitarfélög og fyrirtæki þeirra og reyna þannig að hafa áhrif á kjör þau sem íslenskum sveitarfélögum bjóðast frá öðrum lánveitendum til lækkunar.

Lánstraust lánasjóðsins er mjög gott vegna sterkrar fjárhagsstöðu hans og er lánasjóðurinn því í góðri aðstöðu til að útvega sveitarfélögunum hagstæð lán.

Lánasjóður sveitarfélaga er opinbert hlutafélag í eigu íslenskra sveitarfélaga sem eru 77 talsins. Heildarnafnverð hlutafjár er 5.000.000.000 kr.  Nánari upplýsingar má finna á vef lánasjóðsins www.lanasjodur.is .

Reikningsskila- og upplýsinganefnd

Á vegum innanríkisráðuneytisins starfar Reikningsskila- og upplýsinganefnd sem hefur það hlutverk að stuðla að samræmingu í reikningsskilum sveitarfélaga og öðrum fjárhagslegum upplýsingum þeirra eftir því sem ráðuneytið ákveður og einnig á hún að fjalla um flokkun og greiningu gjalda og tekna, eigna og skulda sveitarfélaga, form fjárhagsáætlana og ársreikninga og annarra fjárhagslegra upplýsinga sveitarfélaga.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Í VIII. kafla sveitarstjórnarlaga er fjallað um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þar eru m.a. ákvæði um Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem hefur  það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga.


Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn

Að loknum sveitarstjórnarkosningum árið 2010 stóð sambandið fyrir fjórum námskeiðum um hina ýmsu þætti þess að vera í sveitarstjórn og fyrir fulltrúa í skólanefndum og félagsmálanefndum sveitarfélaga. Námsefni frá námskeiðunum má nálgast á vefsíðu þeirra.


Kjör sveitarstjórnarmanna

Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur frá árinu 2004 tekið saman upplýsingar um kaup og kjör sveitarstjórnarmanna. Skýrslurnar má finna undir liðnum fjármál hér á vef sambandsins.


Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 skal ráðuneytið hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt þeim lögum og öðrum löglegum fyrirmælum.

Einnig skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, en það skerðir þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum.

Á grundvelli sveitarstjórnarlaga úrskurðar ráðuneytið meðal annars um hvort sveitarstjórnir haldi fundi sína í samræmi við lög, svo sem varðandi fundarboðun, auglýsingu funda, hæfi einstakra sveitarstjórnarmanna o.fl. Einnig hefur ráðuneytið úrskurðarvald varðandi sveitarstjórnarkosningar og atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga.


Hafnasamband Íslands

Hafnasamband Íslands var stofnað árið 1969 að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga, en þar sem hafnamál eru mjög sérhæfð var talið rétt að fara þá leið að stofna sérstakt samband hafna.

Hlutverk Hafnasambands Íslands er að koma fram gagnvart ríkisvaldinu og öðrum í málum er varða hafnirnar, að efla samstarf hafnanna og að vinna að öðru leyti að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum þeirra, svo sem samræmingu á reglugerðum og gjaldskrám og með því að miðla reynslu og upplýsingum. Að þessum verkefnum hefur hafnasambandið unnið allt frá stofnun þess.

Vefur Hafnasambands Íslands.