Almannavarnir sveitarfélaga

Hlutverk sveitarfélaga eftir náttúruhamfarir

Í gegnum tíðina hafa íslendingar þurft að takast á við afleiðingar náttúruhamfara og samfélagslegra áfalla. Jarðskjálftar og eldgos á Suðurlandi hafa valdið miklu eignatjóni og ótta, mannskæð snjóflóð og skriðuföll, sjóslys og flugslys hafa herjað á samfélög með alvarlegum afleiðingum og tekur endurreisn samfélagsins oft langan tíma. Þar gegna sveitarfélög lykilhlutverki enda sinna þau stórum hluta opinberrar þjónustu í samfélaginu. Því er mikilvægt að þau séu vel undirbúin fyrir slík verkefni.

Sveitarfélög geta beitt ýmsum aðferðum til að draga úr og milda afleiðingar náttúruhamfara og annarra áfalla á samfélagið.  Þar má nefna brunavarnir, byggingu varnargarða, í samvinnu við ríkisvaldið, og styrkingu vega og veitna. Ekki er síður mikilvægt að þekkja almannavarnaviðbrögð og móta viðbúnað vegna náttúruhamfara. Sveitarstjórnir skipa almannavarnanefndir sem vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í umdæmum sínum, í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í lögum um almannavarnir nr. 82/2008 eru jafnframt lagðar auknar skyldur á sveitarfélög að útbúa viðbragðsáætlanir fyrir starfsemi sína og stofnanir. Hingað til hefur áhersla áætlana almannavarnanefnda verið á leit og björgun og fyrstu aðstoð en ekki rekstur sveitarfélaga og endurreisn og er því hér um nýjung að ræða.

Skipulag áfallahjálpar á Íslandi

Þann 14. október 2010 var undirritað endurskoðað skipulag áfallahjálpar á Íslandi. Þetta skipulag tekur gildi þegar almannavarnaástand ríkir og byggir það meðal annars á handbók um viðurkennt verklag á vettvangi þegar veita þarf sálrænan stuðning. Skipulagið má sjá í tengli hér til hægri.

Leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara

Eftir jarðskjálfta á Suðurlandi 2008 voru niðurstöður rannsóknarverkefnisins Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN) nánast tilbúnar en lokaafurð þess verkefnis fól í sér leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara. Um var að ræða þriggja ára verkefni sem unnið var í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Sveitarfélagið Ísafjarðarbæ, sveitarfélög á Suðurlandi og fleiri aðila. Markmið verkefnisins var að gera neyðaraðstoð og endurreisn eftir náttúruhamfarir markvissari, með því að greina þarfir íbúa og samfélags og þróa aðferðir og leiðbeiningar fyrir langtímaaðstoð í kjölfar náttúruhamfara eða annarra áfalla.

Leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga á vef Stofnunar Sæmundar fróða.

Ummæli Ragnheiðar Hergeirsdóttur fyrrverandi bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Árborg

„Leiðbeiningar LVN verkefnisins voru ómetanlegar fyrir Sveitarfélagið Árborg í kjölfar Suðurlandsskjálftans 2008.  Viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara og stefna um endurreisn samfélagsins í kjölfar þeirra eru verkfæri sem öll sveitarfélög ættu að gera sér.“

Ummæli Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar

Allir sveitarstjórnarmenn þurfa að vera viðbúnir því að náttúruhamfarir eða önnur áföll ríði yfir sveitarfélagið.  Til að viðbrögð geti orðið fumlaus og örugg er nauðsynlegt að undirbúa sig sem best.  Í kjölfar Suðurlandsskjálftans 2008 var unnin viðbragðsáætlun starfsmanna vegna náttúruhamfara (LVN) þar sem hugað var að endurreisn samfélagsins til lengri tíma litið.  Það er einlæg ósk mín að öll sveitarfélög nýti sér þetta verkfæri til að undirbúa samfélag sitt sem best því reynslan hefur sannað að við getum aldrei verið örugg um að ekkert muni nokkurn tíma gerast hjá okkur


Gagnlega tengla má sjá hér til hægri.