Hver er ábyrgð sveitarstjórna vegna náttúruhamfara?

- ráðstefna haldin á Grand hótel í Reykjavík 21. október 2010

Þann 21. október 2010 var haldin ráðstefna í Reykjavík undir þessari yfirskrift. Ráðstefnan var haldin í samvinnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þátttakendur voru um 90.

Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta var fjallað um umhverfi almannavarna á Íslandi, þ.e. áhættugreiningu eftir landshlutum, regluverkið, viðbragðsáætlanir, hlutverk aðgerðaraðila, verkaskiptingu á milli þeirra, og hvaða stuðning sveitarstjórnir geta fengið þegar vá ríður yfir. Í öðru hluta fjölluðu sveitarstjórar og lögreglustjórar um hvaða lærdóm megi draga af reynslunni frá eldgosunum vorið 2010 og jarðaskjálftunum á Suðurlandi. Í lokin voru umræður um helstu úrlausnarefni og hvernig sé hægt að leysa þau.

Sveitarstjórnarfólk er hvatt til að kynna sér þetta efni þar sem það gefur heildstætt yfirlit yfir almannavarnasviðið. Einnig er tilefni til að vekja athygli á upplýsingum á vefsíðu um almannavarnir hér á vef sambandsins.

Í framsögum og umræðum á ráðstefnunni komu fram ábendingar um ýmis atriði sem þörf er á að bæta en einnig komu fram upplýsingar um hvernig úrlausnarefni hafa verið leyst þannig að til fyrirmyndar er fyrir aðra. Það er t.d. ástæða til að hvetja öll sveitarfélög til að kynna sér niðurstöður rannsóknaverkefnisins um langtímaviðbrögð við náttúruhamförum og lokaafurð þess sem er leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara. Þessar leiðbeiningar komu að góðum notum á Suðurlandi eftir náttúruhamfarirnar þar.

Hér er stutt samantekt um helstu niðurstöður ráðstefnunnar. Er það von aðstandenda hennar að ábendingum um úrlausnarefni verði fylgt eftir og sveitarfélög tileinki sér það sem vel hefur verið gert.

  • Styrkja þarf stjórnun og áætlanagerð. Efla þarf almannavarnastarf sveitarfélaga, t.d. með sameiningu almannavarnanefnda og auknu samstarfi milli sveitarfélaga. Mikilvægt er að framkvæmdastjórar sveitarfélaga taki þátt í störfum almannavarnanefnda og að sveitarfélög geri áhættumat og viðbragðsáætlanir eins og þeim ber lögum samkvæmt. Sveitarfélög ættu að nýta sér það sniðmát sem útbúið var í verkefninu um langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Forsætisráðuneytið þarf að koma með skipulegri og markvissari hætti inn í almannavarnamál. Jafnframt þurfa stjórnendur í héraði og íbúar að gera sér grein fyrir að það eru fyrst og fremst þeir sem þurfa að axla ábyrgð ef almannavarnaástand skapast. Það þarf að varast að treysta um of á utanaðkomandi sérfræðinga.
  • Hafa íbúana með. Mjög mikilvægt í ljósi reynslunnar að hafa íbúa með við undirbúning viðbragðsáætlana og að þeir séu meðvitaðir um alvöruna á bak við æfingar.
  • Gera íbúana meðvitaðri um þeirra skyldur í forvarna- og tryggingamálum. Þörf er á námskeiðum fyrir íbúa um viðbúnað og viðbrögð við almannavarnaástandi.
  • Nýta betur reynslu annarra. T.d. sveitarfélaga sem hafa gert góðar viðbragðsáætlanir og gengið í gegnum náttúruhamfarir.
  • Úrbóta þörf í tryggingamálum. Upplýsa þarf íbúa og stjórnendur sveitarfélaga betur um hvað sé tryggt og hvað ekki, og um skyldur tryggingartaka. Meira samráð þarf milli aðila innan stjórnsýslunnar um tryggingaákvarðanir, mjög mikilvægt að gætt sé samræmis og samkvæmni í ákvörðunum. Bótum stundum ekki ráðstafað til viðgerða og eftir standa ónýt hús. Þyrfti að vera hægt að skilyrða greiðslur miðað við framvindu viðgerða. Íbúar þurfa að fá betri upplýsingar og aðstoð til að leita réttar síns.

Hér efst til hægri á síðunni má sjá erindin sem flutt voru á ráðstefnunni.