Byggingar- og framkvæmdaleyfi

Byggingarleyfi

Byggingarleyfi er heimild sem sveitarstjórn veitir til tiltekinna framkvæmda, oftast byggingarframkvæmda, sem ekki er heimilt að hefja fyrr en að útgefnu leyfinu. Flestar byggingarframkvæmdir og verklegur undirbúningur þeirra eru leyfisskyldar en einnig aðgerðir sem ekki fela endilega í sér framkvæmdir, t.d. breyting á notkun húsnæðis og niðurrif þess. Nánari upplýsingar um byggingarleyfi er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Framkvæmdaleyfi

Meiriháttar framkvæmdir, sem ekki eru háðar byggingarleyfi, eru háðar framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Framkvæmdir teljast meiriháttar þegar þær vegna eðlis eða umfangs hafa veruleg áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess. Nánari upplýsingar um framkvæmdaleyfi er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Byggingar- og framkvæmdaleyfi þar sem ekki liggur fyrir skipulag

Byggingar- og framkvæmdaleyfi skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Þannig skulu byggingarleyfi vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag og
framkvæmdaleyfi í samræmi við aðalskipulag og eftir atvikum einnig deiliskipulag. Byggingar- og framkvæmdaleyfi skulu ennfremur vera í samræmi við
svæðisskipulag þar sem það liggur fyrir. Í bráðabirgðaákvæði í skipulags- og byggingarlögum er sveitarstjórnum þó gert mögulegt að heimila einstakar
framkvæmdir að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag. Nánari upplýsingar er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um leyfi til framkvæmda án þess að fyrir liggi aðal-, svæðis- eða deiliskipulag.