Götur og stígar

Í 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og í grein 13.4 í byggingarreglugerð, nr. 441/1998, segir að þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli sé sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi eftir því sem þörf er á nema sveitarstjórn hafi gert sérstakan fyrirvara. Í lokamálslið 4. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997 er að finna undanþágu frá þeirri meginreglu að sveitarfélög skuli annast gatnagerð innan sveitarfélagsins. Samkvæmt ákvæðinu er sveitarfélögum heimilt að gera fyrirvara við úthlutun lóða um að sveitarfélag annist ekki gatnagerð eða aðrar framkvæmdir samkvæmt ákvæðinu. 

Í lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006 segir að sveitarstjórn skuli innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli. Sveitarstjórn skal verja gjaldinu til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja.